Erlent

Mega ekki innheimta stefgjöld af afmælissöngnum lengur

Atli Ísleifsson skrifar
Afmælissönguinn var samið af systrunum Mildred og Patty Hill frá Kentucky árið 1893.
Afmælissönguinn var samið af systrunum Mildred og Patty Hill frá Kentucky árið 1893. Vísir/Getty
Dómstóll í Bandaríkjunum hefur dæmt að fyrirtæki sem innheimt hefur stefgjöld af afmælissöngnum búi ekki yfir gildum höfundarrétti af laginu. Warner/Chappell hlaut höfundarréttinn árið 1988.

Í dómnum segir að höfundarréttur fyrirtækisins nái einungis til ákveðinnar útsetningar á laginu en ekki lagsins sjálfs.

Í frétt BBC segir að lagið hafi verið samið af systrunum Mildred og Patty Hill frá Kentucky árið 1893. Nefndu þær lagið Good Morning To All sem þróaðist síðar í afmælissönginn sem sunginn er víðs vegar um heim, þar á meðal á Íslandi.

Warner/Chappell hefur innheimt stefgjöld af laginu frá árinu 1988. Félagið keypti réttinn af Birch Tree Group sem áður var Clayton F Summy Co sem krafðist höfundarréttarins árið 1935.

Áætlað er að Warner/Chappell hafi hagnast um tvær milljónir Bandaríkjadala á hverju ári vegna notkunar á laginu í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum, auglýsingum eða á opinberum stöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×