Erlent

Dularfullir drónar sveima yfir Parísarborg

Atli Ísleifsson skrifar
Í nótt sást meðal annars til dróna fljúga nærri Eiffel-turninum.
Í nótt sást meðal annars til dróna fljúga nærri Eiffel-turninum. Vísir/AFP
Íbúar Parísarborgar hafa orðið varir við fjölda dróna sem sveima yfir og í kringum nokkur af helstu kennileitum borgarinnar að nóttu til. Lögregla í borginni lítur málið alvarlegum augum.

Að minnsta kosti fimm drónar sáust á sveimi aðfaranótt dagsins í dag, en lögregla hefur ekki náð tali af neinum þeirra sem stýra drónunum.

Í frétt BBC kemur fram að fyrsti dróninn hafi sést sveima yfir sendiráð Bandaríkjanna og síðar sáust drónar nærri Eiffelturninum og Place de la Concorde. Lögregla telur að málin gætu tengst.

Ekki er flókið að fjárfesta í smærri drónum en vera þeirra nærri helstu kennileitum borgarinnar hafa vakið ugg á meðal lögreglu og almennra borgara.

Í síðasta mánuði sást til dróna fljúga yfir Elysee-höll Frakklandsforseta og í október sáust nokkrir fljúga yfir kjarnorkuver víðs vegar um landið. Einnig hafa borist fréttir af drónum nærri Les Invalides og Bastillunnar.

Með drónum má ná loftmyndum í háum gæðum, en ekki liggur fyrir hvort þeir sem stýra umræddum drónum hafi eitthvað illt í huga eða séu einfaldlega notaðir af áhugafólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×