Erlent

Kúvending í pólskum stjórnmálum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Um 38 milljónir manna búa í Póllandi.
Um 38 milljónir manna búa í Póllandi. Vísir/Epa
Íhaldsflokkurinn Lög og réttur undir forystu Jaroslaw Kaczynski sigraði örugglega þingkosningarnar sem fram fóru í Póllandi í dag. Fyrstu tölur gefa til kynna að flokkurinn hafi alls hlotið um 39 prósent greiddra atkvæða og muni því ekki þurfa að mynda samsteypustjórn eins og kannanir höfðu bent til.

Forsætisráðherra landsins, Ewa Kopacz, lýsti yfir ósigri nú undir kvöld. 


Lengi hefur legið ljóst fyrir að Lög og réttur myndi gera atlögu að sigri í kosningunum í dag en flokkurinn hefur þó verið í stjórnarandstöðu undanfarin átta ár. Það sem talið er að hafi gert útslagið var stuðningur kaþólsku kirkunnar við framboðið.

Borgaraflokkurinn Ewu Kopacz hefur verið við völd síðustu fjögur ár. Flokkur hennar hafði átt undir högg að sækja í aðdraganda kosninganna þrátt fyrir að tölur bendi til þess að stöðugleiki hafi aukist í efnahagsmálum í valdatíð hennar.

Í ljósi niðurstaðna dagsins er búist við því að Beata Szydlo muni taka við forsætisráðherraembættinu en hún var meðal annars kosningarstjóri forseta Póllands, Andrzejs Duda, sem tók við embættinu þann 6. ágúst fyrr á þessu ári. Szydlo er sögð vera hin næsta „járnfrú“ í alþjóðastjórnmálunum þó svo að áherslur hennar og stjórnunarstíll séu sögð líkjast frekar hinni frönsku Marine Le Pen en Margaret Thatcher.

Flóttamannavandinn var mikið ræddur í aðdraganda kosninganna en fráfarandi ríkisstjórn samþykkti að taka á móti 7.000 innflytjendum. Jaroslaw Kaczynski formaður Laga og réttar hefur verið gagnrýndur fyrir ummæli sín í aðdraganda kosninganna um að fara þurfi varlega í móttöku innflytjenda þar sem þeir gætu borið með sér sjúkdóma og sníkjudýr.

Þá hefur flokkur hans sagst vilja endurskoða stöðu Póllands innan Evrópusambandsins og talið er að Lög og Réttur muni beita sér fyrir því að banna með öllu fóstureyðingar í landinu - sem einungis eru leyfðar í neyðartilfellum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×