Erlent

Já-hreyfingin lýsir yfir sigri í kosningunum í Katalóníu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Artur Mas, leiðtogi Já-hreyfingarinnar var kampakátur.
Artur Mas, leiðtogi Já-hreyfingarinnar var kampakátur. Vísir/Getty
Leiðtogi sjálfstæðissinna í Katalóníu, Artur Mas forseti héraðsins, hefur lýst yfir sigri í héraðskosningum Katalóníu sem fram fóru í dag. Þegar búið er að telja um 70% prósent atkvæða er ljóst að flokkarnir tveir sem vilja lýsa yfir sjálfstæði Katalóníu munu ná meirihluta á héraðsþingi Katalóníu.

„Við sigruðum,“ sagði Mas við stuðningsmenn sína sem samankomnir voru til að fagna sigrinum. „Þetta er tvöfaldur sigur. sigur fyrir okkur sem vilja segja já og sigur fyrir lýðræðið.“ Ljóst er að Mas mun þrýsta á um að Katalónia lýsi yfir sjálfstæði en hann bað umheiminn um að viðurkenna sigur já-hreyfingarinnar. „Á bakvið okkur er mikill kraftur og nú höfum við lögmæti til þess að keyra sjálfstæði okkar áfram.“

Kosningabandalagið Junts pel Sí sem samanstendur af fjórum flokkum sem vilja lýsa yfir sjálfstæði fær flest sæti á katalónska þinginu eða 62 en CUP-flokkurinn sem einnig vill lýsa yfir sjálfstæði fær 10 sæti. Alls þarf 68 af þeim 135 sætum til þess að ná meirihluta og því ljóst að þessir flokkar þurfa að vinna saman.

Fyrir kosningarnar hafði Mas lofað því að skyldu aðskilnaðarsinnar ná meirihluta á þingi myndu þeir mynda stjórn og hefja ferlið að því að lýsa yfir sjálfstæði Katalóníu frá Spáni. Spænska ríkisstjórnin hefur hingað til stöðvað allar tilraunir Katalóna til þess að lýsa yfir sjálfstæði.

Ríkisstjórn Spánar er sem fyrr mótfallinn áformum sigurvegara kosninganna í Katalóníu og hefur Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar lýst því yfir að hann muni beita sér af fullum krafti gegn aðskilnaði Katalóníu frá Spáni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×