Menning

Almar ætlar að taka til í kassanum í vikunni

Jakob Bjarnar skrifar
Almar virðir fyrir sér fjölmiðlafárið skömmu áður en hann yfirgaf kassann í morgun. Líkast til hefur hann enga hugmynd um hvílíka athygli verk hans hefur vakið.
Almar virðir fyrir sér fjölmiðlafárið skömmu áður en hann yfirgaf kassann í morgun. Líkast til hefur hann enga hugmynd um hvílíka athygli verk hans hefur vakið. visir/gva
„Hann hefur verið nemandi hjá mér, en ég ber ekki með ábyrgð á þessum kúrsi sem heitir, Leiðir og úrvinnsla, segir Jóhann Ludwig Torfason myndlistarmaður og kennari við Listaháskólann.

Maður dagsins, kannski ársins, hlýtur að vera 1. árs listneminn Almar Atlason, sem í morgun kom út úr glerkassa hvar hann dvaldi þögull í viku. Verkið vakti gríðarlega athygli, um það þarf vart að hafa mörg orð. Um var að ræða lokaverkefni hans í Leiðum og úrvinnslu. Kennarar þar eru Eyrún Sigurðardóttir og Hugi Þór Arason, en þau hafa ekki verið til viðtals í morgun; þau hafa reyndar ekki verið til viðtals í vikunni þá er gjörningurinn hefur staðið yfir.

Jóhann Ludwig segir verkefnið fáránlega mikið blásið út miðað við tilefnið. „En, listin spyr ekkert að því. Hitti á einhverja taug hjá fólki. Það sjá allir sjálfa sig í þessu verki.“

Almar has left the box, farinn í sund en skildi eftir svohljóðandi skilaboð.Ásbjörn Erlingsson
Jóhann Ludwig segir almenna ánægju ríkjandi með verkið, jafnt innan skóla sem utan. „Jú, alveg óhætt að segja það. Einhver taugaæsingur búinn að vera sem að öllu jöfnu er ekki. Persónulega kann ég vel við það. Oft er heldur mikil lognmolla í kringum þetta. Verkið var vel heppnað að öllu leyti.“

Þau í skólanum voru tilbúin með sturtu en Almar afþakkaði hana og fór í sund eftir dvölina í kassanum.

„Annað dásamlegt í þessu er að kassinn er núna með öllu sem í hann hefur safnast. Og þar hefur Almar sett miða: „Ég lofa að taka til í vikunni, kveðja Almar.“ Það er eiginlega óvissan sem við stöndum frammi fyrir í húsinu, hvort hann standi við það.“

Þó verkið hafi heppnast líkast til langt umfram væntingar þá eru flestir ánægðir. „Einhverjir voru að fussa yfir þessu, en hann er það viðkunnanlegur og hefur í sinni rósemd náð að fanga væntumþykjuna,“ segir Jóhann Ludwig.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×