Skoðun

Til hvers jafningjastuðningur við þolendur kynferðis- og heimilisofbeldis

Ingibjörg Þórðardóttir skrifar
Allir þolendur ofbeldis eiga rétt á því að á þá sé hlustað, samkennd. Þeir eiga rétt á tíma til að vinna úr afleiðingunum sem ofbeldið hefur. Þeir eiga rétt á aðstoð til að ná bættri líðan. Til að verða heilli manneskjur. Að geta gengið í gegnum lífið án þess að bera skömmina og sektarkenndina, sem í raun er gerandans. Án þess að bera ótta til annars fólks.

Allir þolendur eiga rétt á að geta gengið í gegnum lífið með fullu sjálfstraustu og virðinu fyrir sjálfu sér. Rétt á að vita að tilfinningar þeirra eru eðlilegar afleiðingar af óeðlilegu ástandi. Afleiðingar þess að önnur manneskja ákvað að beita þau ofbeldi.

Allir þolendur ofbeldis eiga líka ekki bara rétt á, heldur hafa beinlínis þörf fyrir, að vita að þeir séu ekki einir. Ekki einir um að hafa upplifað ofbeldið eða einir um að hafa allar þessar erfiðu og óútskýranlegu tilfinningar. Tilfinningar sem eru svo bara alls ekki óútskýranlegar heldur mjög algengar meðal þeirra sem beittir hafa verið ofbeldi.

Hvernig er hægt að tryggja öllum þolendum þá þjónustu sem þeir þurfa og eiga rétt á? Það er hægt með því að bjóða mismunandi þjónustu og þjónustu sem er þolendum að kostnaðarlausu. Hluti af þjónustu við þolendur fer fram hjá félagsþjónustu sveitarfélaga, innan heilbrigðiskerfisins og á einkastofum ýmissa fagaðila. Hluti af þjónustu við þolendur fer svo fram hjá samtökum eins og t.d. Aflinu, Sólstöfum, Drekaslóð og Stígamótum þar sem eingöngu er unnið út frá því að þolendur komi inn til samtakanna sem jafningjar þeirra sem þar starfa, óháð menntun starfsmanna sem getur verið af ýmsum toga.

Flestir sem sinna ráðgjöf hjá þessum samtökum hafa sjálfir þá reynslu að hafa glímt við afleiðingar ofbeldis, unnið sig í gegnum þær og öðlast þjálfun í því að geta verið öðrum þolendum samferða í gegnum það ferli sem þeirra bíður. Þessi aðstoð við þolendur er gríðarlega mikilvægt verkfæri sem margir geta ekki verið án til þess að skilja sjálfa(n) sig til fulls. Skilja og virkilega finna að afleiðingarnar eru ekki bara sjúkdómsgreining heldur afleiðingar af óeðlilegu ástandi.

Á hverju ári leita hundruð einstaklinga til slíkra samtaka og fá bætta líðan. Sumir hafa leitað til ýmissa fagaðila áður og unnið með þunglyndi, kvíða, félagsfælni og ýmsa aðra hluti en hafa jafnvel aldrei talað um ofbeldið þar. Hafa aldrei farið að rótinni heldur eingöngu unnið með sjúkdómseinkennin. Það er í sjálfu sér frábært og nauðsynlegt en það er ekki nóg.

Þess vegna er jafningjastuðningur líka nauðsynlegur. Hann er nauðsynlegur vegna þess að hann hjálpar þolendum að skilja að þeir eru hluti af hópi sem þekkir tilfinningar þeirra og líðan af eigin raun. Hópi sem ekki lítur á afleiðingarnar sem neitt annað en nákvæmlega það, afleiðingar. Stöndum vörð um vellíðan allra í samfélaginu og tryggjum þolendum þá þjónustu sem þeim er nauðsynleg til að ná því sjálfstrausti og þeirri sjálfsvirðingu sem þeir eiga skilið. Tryggjum fjölbreytta þjónustu öllum þolendum til handa, hvar sem er á landinu.

Þessi grein er hluti af 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.




Skoðun

Sjá meira


×