Menning

Tengingin við Ísland er mikil

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég held ég verði á ferðinni í hverjum mánuði fram á vor,“ segir Hugi sem býr í Kaupmannahöfn en kemur oft heim til Íslands.
"Ég held ég verði á ferðinni í hverjum mánuði fram á vor,“ segir Hugi sem býr í Kaupmannahöfn en kemur oft heim til Íslands. Fréttablaðið/Stefán
„Það er mikill heiður að tilheyra þeim hópi sem þessi verðlaun hefur hlotið,“ segir Hugi Guðmundsson tónskáld sem tók í gær við íslensku bjartsýnisverðlaununum úr hendi forseta Íslands.

Rio Tinto Alcan hefur verið bakhjarl verðlaunanna frá árinu 2000 en þau voru fyrst veitt 1981 og þá kennd við upphafsmann sinn, danska athafnamanninn Peter Bröste. Verðlaunin nú eru sérsmíðaður gripur úr áli frá Straumsvík og ein milljón króna.

Hugi er sjálfstætt starfandi tónskáld og hefur búið í Kaupmannahöfn í 15 ár en á oft erindi heim til Íslands.

„Tengingin við Ísland er mikil. Ég held ég verði á ferðinni í hverjum mánuði fram á vor,“ segir hann brosandi og kveðst til dæmis eiga konsert á lokatónleikum Myrkra músíkdaga um næstu mánaðamót.

Hann vann tónsmíðakeppni Norrænna músíkdaga í Finnlandi 2013 með verki fyrir börn, byggðu á sögunni um Djáknann á Myrká, það verður flutt á sex skóla- og fjölskyldutónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í febrúar.

Síðasta vor fékk Hugi þriggja ára starfslaun frá danska ríkinu, þar sem eitt tónskáld var valið úr hverjum tónlistargeira. Það segir hann hafa verið óvænta viðurkenningu.

„Ég reiknaði aldrei með að vera inni í myndinni af því ég er útlendingur,“ segir hann.

„Eftir að ég hlaut styrkinn fékk ég pöntun um stærðarinnar óperu fyrir sjálfstætt starfandi kompaní sem heitir Öresundsóperan. Hún verður flutt í samstarfi við Hamletsenuna á leikhúshátíð í Hamletkastala í Helsingör í tilefni af 400 ára ártíð Shakespeare árið 2016. Ég hef alltaf nóg fyrir stafni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×