Menning

Varð bara ástfangin af útsýninu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Michelle Bird fyrir framan tvær myndir sem hún hefur gert af fólki í Borgarnesi.
Michelle Bird fyrir framan tvær myndir sem hún hefur gert af fólki í Borgarnesi. Mynd/Samuele Rosso
Litir Borgarness er fyrsta sýning listakonunnar Michelle Bird hér á landi. Hún er nýflutt til Íslands og hefur fest kaup á húsi í Borgarnesi. Í verkum hennar má sjá hvernig hún sem listamaður og nýr íbúi upplifir mannlíf og umhverfi  framandi staðar.

Hún opnar sýninguna í Safnahúsinu í Borgarnesi næsta laugardag klukkan 13 og hefur einnig stillt upp vinnustofu í anddyri sýningarrýmisins þar sem hægt er að sjá helstu verkfæri hennar, liti og fleira.

En hvað kom til að hún settist að í Borgarnesi?

„Ég varð bara ástfangin af útsýninu á hér,“ svarar hún. „Ég hafði komið hingað nokkrum sinnum áður sem ferðamaður og dróst einhvern veginn að staðnum, út frá fallegu umhverfi hans. Svo hef ég kynnst hér yndislegu fólki sem býður mig velkomna.“

Michelle Bird segir þetta í fyrsta sinn sem hún kaupi eigið hús.

„Kannski er það merki um að dvölin verði löng, og þetta sé staðurinn til að vera á,“ segir listakonan sem borgfirsku mótívin heilluðu. Hún segir sýninguna hafa verið ákveðna fyrir ári, hún hafi málað öll verkin sérstaklega fyrir hana og viljað tengja sig við staðinn og fólkið þar.

Allar myndirnar eru málaðar sérstaklega fyrir sýningunni og tengjast Borgarfirðinum.
„Eftir því sem ég skoðaði Hafnarfjallið meira varð ég hrifnari af því. Svo langaði mig sérstaklega að mála fólkið hér, því ég elska að gera myndir af fólki.“

Sýningin stendur til 25. febrúar. Hún verður opin frá 13 til 16 á opnunardaginn og listakonan verður á staðnum.

Eftir það er sýningin opin á virkum dögum frá 15 til 18 og aðgangur er ókeypis.



Michelle Bird er fædd í San Francisco árið 1965. Hún er ættuð frá Bandaríkjunum og Kína en ólst upp í San Francisco, Hawaii og víðar í Kaliforníu.

Hingað kemur hún frá Sviss þar sem hún hefur haft vinnustofu síðustu árin. Hún lærði myndlist í Bandaríkjunum og í Hollandi og hefur sýnt víða um Evrópu og í Bandaríkjunum, auk þess að halda fyrirlestra og leggja stund á listrænt handverk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×