Menning

Dansandi og sveiflukennt

Meðlimir barokksveitarinnar Camerata Øresund hafa allir sérhæft sig í flutningi tónlistar á upprunaleg hljóðfæri.
Meðlimir barokksveitarinnar Camerata Øresund hafa allir sérhæft sig í flutningi tónlistar á upprunaleg hljóðfæri.
„Það sem er sérstakt við þennan flutning á Messíasi er að við spilum allt verkið án stjórnanda. Það gefur færi á mun meiri sveigjanleika í spilamennskunni en ella,“ segir Hanna Loftsdóttir. Hún leikur á barokkselló í hljómsveitinni Camerata Øresund og er meðal þeirra sem skipuleggja flutning á óratoríunni Messíasi í Norðurljósasal Hörpu á morgun, laugardag, klukkan 20.

Auk sveitarinnar syngur kammerkór, skipaður tólf íslenskum og skandinavískum einsöngvurum, verkið.

Hanna segir leiðara hópsins, Peter Spissky, leggja mikla áherslu á hið dansandi og sveiflukennda í tónlistinni.

Tónleikarnir í Danmörku og Svíþjóð gengu vel.
„Peter hefur alveg sérstakt lag á að fá tónlistina til að svinga. Þó við dönsum ekki sjálf í eiginlegri merkingu þá get ég ímyndað mér að margir í áhorfendahópnum eigi erfitt með að sitja alveg stilltir í sumum köflunum. Peter Spissky er líka mjög líflegur í framkomu þannig að það má segja að hann dansi með boganum sínum!“

Óratórían Messías eftir Händel er eitt þekktasta og mest spilaða verk tónbókmenntanna og hefur verið flutt í ýmsum útgáfum í aldanna rás.

Það var ekki fyrr en á 19. öld að þær hefðir sköpuðust að flytja verkið með stórri hljómsveit og fjölmennum kór, þar sem stjórnandi var nauðsynlegur, að sögn Hönnu.

„Við viljum hins vegar leita aftur til hefða barokktímans með því að flytja verkið án stjórnanda og með kammerkór,“ segir hún. „Það skemmtilega er að niðurstaðan verður nútímaleg og áhrifamikil fyrir áhorfendur dagsins í dag.“



Úrval íslenskra og skandinavískra einsöngvara tekur þátt í uppfærslunni. Það eru Hallveig Rúnarsdóttir, Marta Guðrún Halldórsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson, Hafsteinn Þórólfsson, Hrólfur Sæmundsson, Eline Soelmark. Nana Bugge Rasmussen, Francine Vis, Simone Rønn, Leif Aruhn-Solén og Christian Damsgaard.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×