Innlent

19. júní gæti orðið frídagur í stað 17. júní

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson vísir/ernir
Til greina kemur að hafa hátíðarhöld vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna og þjóðhátíðardagsins á sama degi í ár.

„Hugmyndin er að sameina hátíðarhöld vegna 17. júní og 19. júní þegar minnst verður að 100 ár eru frá því konur fengu kosningarétt,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. Borgarstjóri segir að dagurinn allur tæki mið af hundrað ára afmælinu, auk hefðbundinnar dagskrár. 19. júní í ár sé föstudagur og gæti endað á glæsilegum tónleikum á Arnarhóli. Dagur velti hugmyndinni upp í umræðum á borgarstjórnarfundi í gær.

„Það hefur verið stungið upp á því að gera 19. júní að frídegi í ár í tilefni afmælisins,“ segir borgarstjórinn. Illa gangi upp að hafa tvo frídaga með svo stuttu millibili.

„Þetta yrði mjög sérstakt. 19. júní er merkilegur dagur í sögu landsins. Það hefur líka sýnt sig að stórir viðburðir í sögu kvenfrelsisbaráttunnar, á borð við kvennafrídaginn, hafa endurspeglað mikinn áhuga þjóðarinnar á þátttöku,“ segir Dagur.

Dagur segir að hann hafi nefnt hugmyndina við þá sem standa að skipulagningu viðburða sem tengjast afmæli kosningaréttarins. Einnig hafi hann komið henni óformlega á framfæri við forsætisráðuneytið.

„Þetta er hugmynd og þær komast ekki til framkvæmda nema með samvinnu allra. Ég tel þetta gæti orðið stórskemmtilegt.“


Tengdar fréttir

100 ár af kosningarétti

Þann 30. desember verður blásið í lúður og afmælisár boðið velkomið. Fluttur verður fyrirlestur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur sem hún hélt einmitt þann dag árið 1887. Hann er oft talinn marka upphaf kvennabaráttunnar á Íslandi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×