Erlent

Friðsamleg lausn ekki í sjónmáli í Úkraínu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Skriðdrekar stjórnarhersins á leið á vígvöllinn.
Skriðdrekar stjórnarhersins á leið á vígvöllinn. vísir/ap
Úkraínskir hermenn og skæruliðar aðskilnaðarsinna héldu áfram að skiptast á skotum í austurhluta landsins í gær.

Eftir að vopnahlésviðræður fóru út um þúfur gripu menn til vopna á ný og börðust af auknum krafti. Helsti styrinn snýr nú að bænum Debaltseve. Bærinn er í Donetsk-héraði og íbúar hans eru á þriðja tug þúsunda. Hernaðarlegt mikilvægi hans er mikið þrátt fyrir smæð hans en hann hýsir lestarstöð sem uppreisnarmenn vilja ráða yfir.

Yfirvöld í Kænugarði segja að minnst þrettán hermenn úr þeirra röðum hafi látist í gær auk jafn margra óbreyttra borgara. Líklegt er að sú tala hafi hækkað. Tölur um mannfall aðskilnaðarsinna liggja ekki fyrir.

Í borgum og bæjum í kringum Debaltseve hefur einnig verið barist. Uppreisnarmenn hafa náð bænum Vuhlehirsk á sitt vald og sprengjum rignir yfir Avdiivka. Íbúar á svæðinu hafa flúið og leitað skjóls í borginni Slaviansk sem er undir stjórn yfirvalda.

„Við vitum ekki einu sinni hverjir eru að skjóta. Sprengjunum rigndi yfir bæinn og þar er ekkert vatn, rafmagn eða matur,“ segir maður sem flúði frá Avdiivka.

Bardagar hafa nú staðið í landinu, með hléum, í níu mánuði. Talið er að yfir fimm þúsund manns hafi látist í átökunum. Í augnablikinu virðist friðsamleg lausn ekki vera í sjónmáli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×