Erlent

Flutu sofandi að feigðarósi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Úkraínskir hermenn á leiðinni brott frá átakasvæðunum, samkvæmt ákvæðum friðarsamkomulags.
Úkraínskir hermenn á leiðinni brott frá átakasvæðunum, samkvæmt ákvæðum friðarsamkomulags. Vísir/EPA
Í aðdraganda stríðsátakanna í Úkraínu gerðu hvorki bresk stjórnvöld né aðrir ráðamenn í Evrópusambandinu sér neina grein fyrir því hve andsnúnir Rússar voru nánari tengslum Úkraínu við Evrópusambandið.

Þetta kemur fram í ítarlegri skýrslu frá Evrópunefnd lávarðadeildar breska þingsins, að Vesturlönd hafi flotið sofandi að feigðarósi hvað þetta varðar.

Nefndin gagnrýnir stjórnvöld harðlega fyrir ómarkviss vinnubrögð og skilningsleysi á ástandinu. Það stafi ekki síst af því að dregið hafi verið úr fjárframlögum til greiningar og upplýsingasöfnunar í breska utanríkisráðuneytinu. Vantað hafi fleiri sérfræðinga um Rússland í ráðuneytið til þess að hægt væri að lesa betur í stöðuna.

Þá hafi forysta Evrópusambandsins gefið sér að Rússland væri á góðri leið með að verða lýðræðisríki, en sú forsenda hafi verið of bjartsýn: „Aðildarríkin hafa verið lengi að endurmeta samskiptin og aðlagast veruleika þess Rússlands sem við eigum við að etja í dag,“ segir í skýrslunni.

Ósáttir við Rússa Íbúar í Kænugarði með mótmælaspjöld gegn Pútín Rússlandsforseta og Rússum almennt.Nordicphotos/AFP
„Athafnir Rússa þarf að skoða innan bæði hins sérstaka sögulega samhengis Úkraínu sjálfrar og innan víðara samhengis hegðunar Rússa í nágrannalöndunum,“ segir í skýrslunni. „Staðan nú er mjög frábrugðin því sem var árið 1991 þegar Sovétríkin liðuðust með friðsamlegum hætti í sundur í fimmtán ríki.“

Breska stjórnin hafnar þessari gagnrýni. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir aðalatriðið núna vera að senda Rússum skýr skilaboð um að það sem gerst hafi sé óviðunandi: „Það verður að standa við vopnahléið, og ef það gerist ekki þá verða frekari afleiðingar, frekari refsiaðgerðir,“ hefur BBC eftir honum.

Skýrslan var birt í gær, en þá var rétt ár liðið frá blóðugasta degi mótmælanna í Kænugarði þegar meira en 50 manns létu lífið. Um það bil tveimur mánuðum seinna hófust svo stríðsátökin, sem nú hafa kostað meira en fimm þúsund manns lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×