Lífið

Þaktir skrautlegum húðflúrum

Vel húðflúruð þrenna: (f.v.) Rúnar Geirmundsson, Hafþór Júlíus Björnsson og Andri Már Engilbertsson.
Vel húðflúruð þrenna: (f.v.) Rúnar Geirmundsson, Hafþór Júlíus Björnsson og Andri Már Engilbertsson. MYND/STEFÁN
Áhugi Hafþórs, Rúnars og Andra Más á húðflúri byrjaði snemma á lífsleiðinni. Þeir fengu sér allir húðflúr við fyrsta tækifæri og hafa bætt við í safnið jafnt og þétt síðan.

Hafþór Júlíus Björnsson

Kraftakarlinn Hafþór Júlíus Björnsson hefur í nógu að snúast þessar vikurnar. Fram undan eru tvö stórmót auk þess sem hann flýgur til Katar í næstu viku þar sem hann verður viðstaddur stóra tölvuleikjahátíð.

„Fyrra mótið sem ég tek þátt í er Arnold Sports Festival í Bandaríkjunum, nefnt eftir meistaranum sjálfum Arnold Schwarzenegger. Svo er ég á fullu að búa mig undir mótið Sterkasti maður heims sem haldið verður í apríl í Malasíu. Ég stefni auðvitað á fyrsta sætið en ég er í mjög góðu formi og vel stemmdur fyrir mótið.“ Í næstu viku heldur Hafþór til Katar en honum var boðið sérstaklega á stóra tölvuleikjahátíð sem haldin er þar. „Ég á marga aðdáendur á þessum slóðum og fer raunar bara út til að hitta þá og gefa eiginhandaráritanir.“

Hafþór er vel skreyttur tattúum en það fyrsta fékk hann 15 ára gamall. „Ég þurfti auðvitað leyfi frá pabba mínum og suðaði í honum í margar vikur þar til hann gaf sig loksins. Fyrst fékk ég mér tribal-tattú á bakið en þau voru í tísku á þessum tíma. Svo hef ég haldið áfram hægt og rólega gegnum árin.“

Meðal húðflúra á Hafþóri má nefna Elvis Presley og Marilyn Monroe sem hvort prýðir sinn fótlegginn. Jón Páll Sigmarsson er einnig á vinstri fætinum og fræg tilvitnun hans þegar hann sló met í réttstöðulyftu á sínum tíma: „There is no reason to be alive if you can't do deadlift.“

Hægri armur Hafþórs er alsettur húðflúri en sá vinstri til hálfs. „Markmiðið er að klára vinstri handlegginn einhvern tíma síðar á árinu.“

Rúnar Geirmundsson

Rúnar Geirmundsson starfar sem aðstoðarmaður á Bleksmiðjunni sem er húðflúrstofa í Reykjavík. Utan þess á hann og rekur fatafyrirtækið Akkeri Clothing í félagi við Dag Gunnarsson en fyrirtækið framleiðir „Streetwear“-fatnað fyrir karla og konur á borð við boli, derhúfur og peysur. Hann fékk snemma mikinn áhuga á húðflúri og segist hafa pantað fyrsta tímann sinn 14 ára gamall. „Ég mátti það víst ekki fyrr en ég var orðinn 18 ára þannig að ég þurfti að bíða í nokkur ár. Þegar ég hafði aldur til tók ég fyrst nánast allan vinstri handlegginn í einu.“

Uppáhaldshúðflúrið hans þessa stundina er fiðrildi framan á hálsinum sem hann fékk sér fyrir mánuði. „Ég hef nú ekki talið tattúin nýlega enda svo sem aukaatriði hvað þau eru mörg. Hins vegar stefni ég á að innan eins og hálfs árs verði allur líkaminn þakinn húðflúri, eða svokallað „Body Suit“. Það er verið að vinna í því plani á fullu og stefnan sett á að klára það seinni part árs 2016.“

Andri Már Engilbertsson

Eigandi Irezumi Ink-húðflúrstofunnar í Reykjavík, Andri Már Engilbertsson, hefur mörg járn í eldinum. Undanfarin ár hefur hann þjálfað fitness sport og crossfit en í augnablikinu er stofan, sem hann opnaði nýlega, fyrirferðarmest í lífi hans. Sjálfur var hann fimmtán ára gamall þegar hann fékk sitt fyrsta tattú. „Fyrir tólf árum fékk ég mér fyrsta húðflúrið. Það fór á bakið og er víkingarúnir.“

Andri Már er í dag með flúr á báðum handleggjum sem tengist við brjóstkassann, á maganum og báðum síðum. „Næsta verk er að fá mér skálm á löppina hægra megin og fylla alla löppina.“

Hann segir erfitt að nefna eitt uppáhaldstattú umfram önnur. „Þau renna eiginlega öll saman í eitt stórt tattú í dag og því erfitt að velja. Ég er ánægður með þau öll og líka spenntur fyrir þeim næstu sem ég búinn að teikna upp. Þar tek ég fyrir bak og rass og það verður það hrikalegasta sem ég á eftir að vera með og væntanlega uppáhaldið mitt. Það verður japanskt þema og sá sem mun sjá um það heitir Sören og kemur frá Kaupmannahöfn. Hann er einn af þeim betri á Norðurlöndum og verkið tekur sjálfsagt rúmlega 50 klukkustundir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×