Erlent

Hjúkrunarfræðingur sakaður um að hafa myrt 30 einstaklinga

Samúel Karl Ólason skrifar
Hjúkrunarfræðingurinn Niels H. í dómsal.
Hjúkrunarfræðingurinn Niels H. í dómsal. Vísir/AFP
Fyrrverandi hjúkrunarfræðingur í Þýskalandi viðurkenndi fyrir sálfræðingi að hafa myrt 30 sjúklinga. Þetta kom fram í vitnisburði sálfræðingsins, en hjúkrunarfræðingurinn hefur verið ákærður fyrir að hafa myrt þrjá sjúklinga og reynt að myrða tvo til viðbótar.

Rannsakendur segja að tilefni morðanna hafi verið að maðurinn vildi æfa sig í endurlífgun. Hann myrti fólkið með því að gefa þeim of stóran skammt af hjartalyfjum á árunum 2003 til 2005. Árið 2008 var hann sakfelldur fyrir morðtilraun og dæmdur til sjö og hálfs árs fangelsisvistar.

Sálfræðingurinn bar vitni í máli hjúkrunarfræðingsins, sem yfirvöld segja að heiti Niels H., og sagði hann að Niels hefði játað fyrir sér að hafa myrt 30 manns. Þá hafi hann eitrað fyrir fólki allt að 60 sinnum, en tekist að beita endurlífgun.

Lögreglan rannsakar nú rúmlega hundrað dularfull dauðsföll á sjúkrahúsinu þar sem Niels starfaði, samkvæmt BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×