Innlent

Fimmtán samtök fylkja sér að baki NMSÍ

Svavar Hávarðsson skrifar
Þess er krafist af Alþingi og ráðherra að Náttúruminjasafni Íslands sé sýnd tilhlýðileg virðing.
Þess er krafist af Alþingi og ráðherra að Náttúruminjasafni Íslands sé sýnd tilhlýðileg virðing. vísir/gva
Fimmtán náttúruverndar- og útivistarsamtök hafa sent Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra, ályktun þar sem farið er fram á að Alþingi og ráðherra axli ábyrgð og tryggi starfsemi og rekstur Náttúrugripasafns Íslands, sem er eitt þriggja höfuðsafna landsins.

Í ályktuninni er skorað á Alþingi og ráðherra „að taka hið fyrsta af skarið varðandi málefni Náttúruminjasafnsins og búa þannig um hnútana að starfsemi þessa höfuðsafns þjóðarinnar í náttúrufræðum rísi undir nafni og sómi sé af við miðlun á fróðleik og þekkingu um náttúru landsins, náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda, eins og lög kveða á um“.

Eins og Fréttablaðið hefur fjallað um á síðustu vikum er staða Náttúruminjasafnsins dapurleg og til skammar að mati borgarstjóra og fleiri. Stofnunin er fjársvelt, ekkert sýningahald starfrækt og skrifstofuaðstaðan nýverið í lausu lofti eftir uppsögn á húsaleigusamningi.

Samtökin krefjast þess að stjórnvöld axli ábyrgð og tryggi Náttúruminjasafninu starfsumhverfi og fjármagn til reksturs sem hæfir höfuðsafni og gerir því kleift að sinna lögbundnum hlutverkum sínum.

Nöfn samtakanna fimmtán:

Náttúruverndarsamtök Íslands

Bandalag íslenskra skáta

Félag húsbílaeigenda

Ferðaklúbburinn 4x4

Framtíðarlandið

Fuglavernd

Hið íslenska náttúrufræðifélag

Kayakklúbburinn

Landssamband hestamanna

Náttúruverndarsamtök Suðurlands

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands

Skógræktarfélag Íslands

Ungir umhverfissinnar

Útivist

Landvernd




Fleiri fréttir

Sjá meira


×