Lífið

Kostnaður við útskriftarferðir getur verið gífurlegur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Áfangastaðir skólanna sex teygja sig víða um heim.
Áfangastaðir skólanna sex teygja sig víða um heim.
Kostnaður útskriftarnema íslenskra framhaldsskóla við útskriftarferðir getur verið hátt í þrjú hundruð þúsund krónur. Fjöldi skóla heldur enn uppi þeirri hefð að fara í útskriftarferð. Fréttablaðið tók saman hvert sex íslenskir framhaldsskólar ætla sér að fara í sumar, hve lengi og hver kostnaðurinn er.

Skólarnir sex sem urðu fyrir valinu í úttektinni eru Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Sund, Menntaskólinn að Laugarvatni, Kvennaskólinn í Reykjavík og Verzlunarskóli Íslands. Allir eiga þessir skólar það sameiginlegt að í þeim er bekkjakerfi.

Menntaskólinn við Laugavatn

Kostnaðarsamasta ferðin, af þeim sem Fréttablaðið tók út, sem farin er í ár er sú sem nemar Menntaskólans við Laugarvatn halda í. Í byrjun júní, að útskrift lokinni, munu þeir leggja í hann til Balí þar sem dvalið verður í tvær vikur. Að auki er stefnt að því að hópurinn gisti í eina nótt í London áður en haldið er áfram til Indónesíu. Aðeins morgunverður er innifalinn í verðinu en ekki frekari máltíðir eða veigar.

Menntaskólinn í Reykjavík

Nemar Menntaskólans í Reykjavík halda til Norður-Afríku og munu dvelja þar í tæpar tvær vikur. Í upphafi stóð til að hópurinn færi til Mexíkó en fyrir rúmum mánuði var ákveðið að breyta um áfangastað þar sem sú ferð þótti of dýr. Ferðin til Mexíkó átti að kosta tæplega 310.000 krónur en með því að fara til Marokkó sparast tæplega sjötíu þúsund krónur. Drykkir og fullt fæði er í boði síðari hluta ferðarinnar en þann fyrri er aðeins morgunmatur innifalinn.

Stjórn Hugins, nemendafélags Menntaskólans á Akureyri, úti á Krít síðasta haust.mynd/kristín releena jónasdóttir
Verzlunarskólinn og Kvennaskólinn

Ferðir Verzlunarskóla Íslands og Kvennaskólans í Reykjavík munu skarast í örfáa daga og um tíma munu því tveir hópar útskriftarnema vera saman í Marmaris í Tyrklandi. Ferðir skólanna kosta ríflega tvö hundruð þúsund krónur og í boði er að vera í allt að tvær vikur. Einhverjir kjósa þó þann kost að fara að viku liðinni til að ná inntökuprófum í Háskóla Íslands. Matur og áfengi er innifalið í verðinu síðari hluta ferðarinnar.

Menntaskólinn við Sund

Magaluf á spænsku eyjunni Mallorca er áfangastaður þeirra sem útskrifast frá Menntaskólanum við Sund. Þeir, líkt og nemar MR og MA, fara í sína ferð áður en þeir hefja nám á lokaári. Er það gert til að þétta hópinn og búa til ný vinabönd, auk þess að treysta þau gömlu, fyrir síðasta skólaárið. Nemendum stendur til boða að vera annaðhvort í viku eða tvær og veltur kostnaður hvers og eins á því hve lengi hann dvelur.

Menntaskólinn á Akureyri

Nemendur Menntaskólans á Akureyri komast í burtu með minnstan ferðakostnað. Ferð þeirra kostar 175.000 krónur en aðeins morgunmatur er innifalinn í verðinu. Hundrað þúsund krónum munar því á þeirri ferð sem dýrust er og hinni ódýrustu. 

Hvert svo sem ferðinni er nú heitið og hvað sem hún mun kosta er morgunljóst að nemar munu skemmta sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×