Innlent

Pam lagði Vanúatú alveg í rúst

stefán rafn sigurbjörnsson skrifar
Vanúatú Íbúi hreinsar upp rústir húss síns.
Vanúatú Íbúi hreinsar upp rústir húss síns. UNICEF/AFP
Átta manns hafa látið lífið og neyðarástandi hefur verið lýst yfir í eyríkinu Vanúatú í Suður-Kyrrahafi eftir að fellibylurinn Pam gekk yfir eyjaklasann.

Fjöldi húsa í höfuðborginni Port Vila lögðust í rúst í storminum og eignatjón er gríðarlegt en gert er ráð fyrir að um 90 prósent húsnæðis í Port Vila séu illa skemmd. Óttast er að tölur um fjölda látinna muni hækka snarlega þegar björgunaraðgerðir hefjast á landsbyggðinni þar sem ríkir mikil fátækt.

Baldwin Lonsdale, forseti Vanúatú, hefur greint frá víðtækri eyðileggingu sem fellibylurinn olli og hefur lýst bylnum sem skrímsli. Hann hefur biðlað til alþjóðasamfélagsins um aðstoð við enduruppbyggingu á eyjunum. Ríkisstjórnir Ástralíu og Nýja-Sjálands hafa sent íbúum Vanúatú hjálpargögn og munu aðstoða við björgunaraðgerðir. Önnur ríki hafa lýst yfir að þau muni einnig veita aðstoð.

Fellibylurinn Pam, sem hefur þegar valdið eyðileggingu á öðrum Kyrrahafseyjum, stefnir nú í átt að Nýja-Sjálandi en styrkur hans fer dvínandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×