Lífið

Upplifunin helst skýrð í kvikmynd

Á toppi Kilimanjaro ásamt hópi göngugarpa
Á toppi Kilimanjaro ásamt hópi göngugarpa
Leifur Örn Svavarsson, einn stofnenda Íslenskra fjallaleiðsögumanna, er einn reyndasti leiðsögumaður Íslands enda hefur hann starfað sem slíkur í um þrjátíu ár.

Í febrúar síðastliðnum náði hann því markmiði að ganga á hæstu tinda allra heimsálfanna sjö en þá náði hann toppi Carstensz Pyramid á Papúa Nýju-Gíneu sem er hæsti tindur Eyjaálfu. Auk þess að hafa gengið á tindana sjö hefur hann gengið á bæði suður- og norðurpólinn. Leifur er annar Íslendingurinn sem nær þessum árangri á eftir Haraldi Erni Ólafssyni en einungis um fjörutíu manns í heiminum hafa klárað þessa áskorun.

„Ég er alls ekki hættur þótt þessum áfanga sé náð. Eftir um viku geng ég í þriðja sinn á Denali, hæsta fjall Norður-Ameríku. Um næstu áramót stefni ég á suðurpólinn og í kjölfarið á hæsta fjall Suðurskautslandsins, Vinson Massif. Ég hef farið á flesta tindana oftar en einu sinni og þrisvar sinnum á Aconcagua.“

Leifur hafði dani-fólk til aðstoðar á göngu sinni á Carstensz Pyramid á Papúa Nýju-Gíneu.
Einstök lífsreynsla

Tindarnir sjö eru eins og áður segir Carstensz Pyramid í Eyjaálfu og Denali í Norður-Ameríku, Elbrus í Evrópu, Kilimanjaro í Afríku, Vinson Massif á Suðurskautslandinu, Aconcagua í Suður-Ameríku og Everest í Asíu. Leifur segir að þótt tindarnir standi fyrir sínu þá sé til fullt af fjöllum sem einnig sé gaman að fara á.

„Í heildina er ég mjög hrifinn af Grænlandi og væri til í að eyða meiri tíma þar. Háslétta Tíbets og fjallahéruð Nepals eru líka ákaflega heillandi. Þetta sambýli manna við hrjóstruga náttúru og hvernig þeir hafa aðlagað sig óblíðum náttúruöflum finnst mér heillandi,“ segir Leifur og bætir við að tveir ólíkir hlutir sitji helst eftir af ferðunum á tindana sjö og pólana.

Leifur hefur þrisvar sinnum náð toppi Aconcagua, hæsta fjalls Suður-Ameríku.
 „Öll verkefnin hafa verið mjög skemmtileg og fullkomlega þess virði en tvennt stendur upp úr. Annars vegar gangan meðal frumbyggja regnskóga Papúa Nýju-Gíneu til að komast að Carstensz Pyramid. Þar óð ég drullu og klofaði yfir fallna trjáboli með dani-fólk, sem er í litlum tengslum við vestræna siðmenningu, sem aðstoðarfólk. Það var einstök lífsreynsla."

"Hins vegar var það allt annar hlutur að vera á fljótandi íshellu Norður-Íshafsins á leið á norðurpólinn. Slíkt verður í rauninni ekki skýrt nema í kvikmynd, íshellan er á hreyfingu og hljóð og brestir heyrast allan tímann. Þar er engu hægt að treysta og ekkert sem er víst. Ferðin gengur vel í augnablikinu en við sjóndeildarhringinn er kannski opið haf eða brotnir jakar eða eitthvað sem er algjörlega óvíst. Norðurpóllinn er allt öðruvísi en suðurpóllinn sem er að mörgu leyti vinalegur. Þar er kalt en alltaf sól, hann er mjög einsleitur en norðurpóllinn er síbreytilegur.“

Leifur á toppi Vinson Massif. Myndir úr einkasafni
Þarf að hlusta á hjartað

Spurður að því hvort hann verði aldrei hræddur á ferðum sínum segir Leifur að það fylgi því alltaf einhver áhætta þegar farið er svo hátt, sérstaklega ef hæðin er yfir sjö þúsund metrar.

„Markmiðið er alltaf að koma aftur heim, með alla fingur og tær. Ég er fullkomlega meðvitaður um að það er alltaf áhætta í för með þessu og líka áhætta sem ekki er ráðið við eins og svo berlega hefur sýnt sig á nýliðnum atburðum. Þegar ég fór í Everest-leiðangurinn fyrir tveimur árum sem var einkaleiðangur þá var ég norðanmegin í fjallinu og það er helst þar sem dauðinn er sýnilegur. Þar liggur enn látið fólk sem hefur dáið einhverjum árum og áratugum áður á leiðinni upp fjallið. Þar fer það ekki á milli mála að þetta getur verið lífshættulegt og því vissara að undirbúa sig vel,“ útskýrir Leifur.

„Þetta er ekki spurning um að ögra sjálfum sér. Öll fjallamennska er viss ögrun en þetta þarf að koma í litlum skrefum. Ef skrefin verða of stór eða eru tekin í huganum eða annars staðar utan raunveruleikans þá verður þetta frekar hættulegt.“

Leifur segir suðurpólinn vera vinalegan en norðurpólinn síbreytilegan.
Aðalhvatann að því að komast á fyrirhugaðan stað segir Leifur vera löngunina til að komast þangað. „Til að hafa orkuna sem þarf til að yfirstíga fjölmarga erfiðleika á leiðinni þarf löngunin að vera mikil. Ég held að maður þurfi að hlusta á hjartað og hafa þann drifkraft sem þarf til að komast á áfangastað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×