Innlent

Smíði nýrrar ferju til Vestmannaeyja

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Elliði Vignisson
Elliði Vignisson
„Nú er búið að kynna fyrir okkur að skipið verði tilbúið til siglinga árið 2016 og við treystum því. Áður hafði okkur reyndar verið sagt að skipið yrði tilbúið árið 2010,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, um nýja ferju sem mun sigla til og frá Vestmannaeyjum. „Ferjan mun bera jafn marga farþega og núverandi ferja eða rétt um fjögur til fimm hundruð manns.“

Innanríkisráðherra, ásamt fulltrúum Vestmannaeyjabæjar, Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar, fór yfir stöðuna varðandi siglingar í Landeyjahöfn fyrr í vikunni. Fjallað var um smíði nýrrar ferju, fyrirkomulag siglinga þar til ný ferja verður komin í gagnið, líklega þróun sandburðar við Landeyjahöfn og rannsóknir sem fram undan eru.

„Það er enn þá bara búið að ljúka helmingi framkvæmdar sem hófst árið 2008 með byggingu Landeyjahafnar og nú bindum við vonir um að ríkið ljúki við hinn helminginn,“ segir Elliði.

Í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu kemur fram að við fjármögnun verði litið til verkefnisins í heild, það er smíði nýrrar ferju og aðgerða til aðlögunar Landeyjahafnar að breyttum náttúrulegum aðstæðum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×