Menning

Gefur tónlistinni líf

Magnús Guðmundsson skrifar
Anna Þorvaldsdóttir segist eiga að erfitt með að sjá sig sem fyrirmynd ungra kvenna við tónsmíðar.
Anna Þorvaldsdóttir segist eiga að erfitt með að sjá sig sem fyrirmynd ungra kvenna við tónsmíðar. Mynd/Saga Sig
„Það er vissulega frábært að standa fyrir svona tónleikum en að sama skapi leiðinlegt að þess sé þörf. En þetta er gott framtak hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og þá sérstaklega að fá svona flotta konu eins og Ligia Amadio stjórnanda,“ segir Anna Þorvaldsdóttir tónskáld en í kvöld verða sérstakir kvennatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Á efnisskrá tónleikanna er píanókonsertinn Slátta eftir Jórunni Viðar, Dreymi eftir Önnu Þorvaldsdóttur og Gelíska sinfónían eftir bandaríska tónskáldið Amy Beach. Einleikari í Sláttu verður Ástríður Alda Sigurðardóttir, sem er á meðal okkar helstu píanóleikara af yngri kynslóðinni.

Þurfum fyrirmyndir

Anna Þorvaldsdóttir segir að Ligia sé bæði frábær stjórnandi og brautryðjandi fyrir konur á þessum vettvangi og reyndar alveg sérstaklega í Suður-Ameríku. Ligia er frá Brasilíu og starfar sem aðalhljómsveitarstjóri Fílharmóníusveitarinnar í Bogotá í Kólumbíu.

„Konum er vissulega aðeins að fjölga á meðal hljómsveitarstjóra en það gerist hægt. Helst til of hægt í rauninni. Málið er að ungar konur þurfa fyrirmyndir til þess að sjá að þetta er hægt – sjá að þær geta fetað þessa braut. Hið sama gildir um tónskáldin.

Þegar ég var að byrja sem tónskáld þá reyndi ég vissulega að finna slíkar fyrirmyndir en það er ekki mikið flutt af verkum kventónskálda. En þetta er að verða meira og meira og það skiptir miklu máli. Það er samt erfitt fyrir mig að meta það hvort ég sé fyrirmynd í augum yngri kvenna sem hafa áhuga á að leggja fyrir sig tónsmíðar. En ég vinn mikið og reyni að vera góð fyrirmynd.“

Verðlaunin lífga tónlistina

Anna hlaut nýverið hin virtu Marie-Josée Kravis Prize for New Music sem Fílharmónían í New York veitir. „Vissulega finn ég að verðlaun sem þessi skipta máli enda er eftir þeim tekið. Í grunninn er það samt tónlistin sem er hið eiginlega framlag og skiptir mestu máli og það er fullt af fólki að gera góða hluti í heimi tónlistarinnar í dag. Ég lít því á verðlaun sem ákveðna vegsemd fyrir tónlistina.

Auðvitað er þetta mikil hvatning fyrir mig og þá ekki síst að fá að vinna með Fílharmóníusveitinni í New York. Það gerir tónlistinni minni fært að lifna við og það er það dýrmætasta í þessu og að það skuli verið að vinna með nýja tónlist á þessum vettvangi. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur einmitt verið mikið í að flytja nýja tónlist og er í raun á meðal hljómsveita sem eru í fararbroddi í heiminum í þessum efnum.“

Sérstök upplifun

Anna segir að þótt hún búi í Reykjavík sé hún óneitanlega mikið á faraldsfæti vegna starfsins. „Ég ferðast mikið til bæði Bandaríkjanna og Evrópu. Vinn með ýmsum hópum og skemmtilegu fólki en ég þarf að passa mig að hafa tíma til þess að semja.

Mér finnst líka mikilvægt að vera hluti af flutningi verkanna. Vil kynnast flytjendum hverju sinni og finn líka að þau vilja heyra í mér. Þessi æfingatími fyrir flutninginn á verkunum er alltaf sérstök upplifun sem mér finnst vera mikilvægur hluti af þessu. Þannig nýt ég þess að vinna og fylgjast með stjórnanda koma með ferska nálgun – eins og til að mynda hjá Ligia á tónleikum kvöldsins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×