Handbolti

Draumurinn er að komast áfram

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stelpurnar verða að eiga frábæran leik.
Stelpurnar verða að eiga frábæran leik. Fréttablaðið/Ernir
„Við komum okkur sjálfar í svolítið erfiða stöðu í fyrri leiknum,“ segir Rut Jónsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í handbolta, við Fréttablaðið um fyrri umspilsleikinn gegn Svartfjallalandi um sæti á HM í vetur.

Svartfjallaland vann fyrri leikinn, 29-18, og þurfa stelpurnar okkar því tíu marka sigur í Höllinni gegn einu besta liði heims ætli þær áfram.

„Það var svekkjandi að ná ekki betri úrslitum á útivelli en samt sem áður ætlum við að fara í leikinn einbeittar og það væri frábært að ná í sigur. Ef tækifæri gefst ætlum við okkur áfram. Draumurinn er að komast áfram,“ segir Rut.

Stelpurnar byrjuðu vel ytra og voru með sex marka forystu eftir tíu mínútur, en eftir það fór allt í baklás.

„Þær breyttu varnarleiknum eftir 20 mínútur og komu okkur úr jafnvægi. Svo áttum við bara í vandræðum með sóknarleikinn. Þetta er náttúrlega rosalega sterkt lið sem við erum að spila við,“ segir Rut.

Hún segir ekki alla von úti enn. „Ég er spennt að sjá hvernig þær mæta í þennan leik. Maður veit aldrei með þessar þjóðir, þær gætu ætlað að taka þetta með vinstri. Við ætlum að vera á tánum og mæta af fullum krafti,“ segir Rut Jónsdóttir.

Leikurinn hefst klukkan 14.30 í Laugardalshöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×