Erlent

Samningurinn við Írana veldur deilum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
John Kerry (til vinstri) varði samning stórvelda heimsins við Írana fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings í gær. Honum til halds og trausts voru Ernest Moniz (í miðjunni) orkumálaráðherra og Jacob Lew (til hægri) fjármálaráðherra.
John Kerry (til vinstri) varði samning stórvelda heimsins við Írana fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings í gær. Honum til halds og trausts voru Ernest Moniz (í miðjunni) orkumálaráðherra og Jacob Lew (til hægri) fjármálaráðherra. nordicphotos/afp
„Samningurinn er traustari leið til að koma í veg fyrir kjarnorkuvopnvæðingu Írans en hernaðarárásir eða áframhaldandi viðskiptabönn,“ sagði John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þegar hann varði samning stórvelda heimsins, Bandaríkjanna, Þýskalands, Bretlands, Kína, Frakklands, Rússlands og Evrópusambandsins við Írana um kjarnorkumál landsins fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings í gær.

Þingmenn repúblíkana létu raddir sínar heyrast í gær en flestir þeirra, sem eru í meirihluta bæði í öldungadeild og fulltrúadeild þingsins, eru andvígir samningnum. Þeir telja hægt að fá betri samning með því að fella þennan. John Kerry sagði það þó ekki raunina því andstæðan við þennan samning væri ekki betri samningur, heldur áframhaldandi viðskiptabönn og jafnvel stríð. Ekki væri hægt að ná betri samningi. Bob Corker, öldungadeildarþingmaður Tennesseefylkis, sagði ríkisstjórnina tala eins og samningurinn væri það eina sem kæmi í veg fyrir stríð. Corker sagði það miklar ýkjur.

John Boehner, forseti fulltrúadeildarinnar og leiðtogi flokks repúblikana á þinginu, sagðist í fyrradag ætla að beita öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir að samningurinn komist í gagnið.

Marco Rubionordicphotos/AFP
Fulltrúadeild þingsins hefur nú sextíu daga til að ræða samninginn og mun svo kjósa um hann. Ef samningurinn yrði felldur hefur Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagst ætla að beita neitunarvaldi sínu gegn þeirri ákvörðun. Þá þyrfti tvo þriðju hluta þingsins til að snúa við ákvörðun forsetans. 

Þar sem repúblikanar hafa ekki nægilega mikinn meirihluta, einungis 56 prósent, mun þingið líklega ekki geta snúið ákvörðuninni við þar sem einungis örfáir demókratar kveðast óvissir um samninginn.

„Jafnvel þótt samningurinn komist í gegnum þingið hefur næsti forseti enga lagalega skyldu til að standa við hann. Samningurinn gæti horfið daginn sem Obama lætur af störfum,“ sagði Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður frá Flórída og einn þeirra sem sækjast eftir útnefningu repúblíkana til forsetaframboðs á næsta ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×