Erlent

Umhverfisráðherra Frakklands í heimsókn á Íslandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Umhverfisráðherra Frakka mun funda með íslenskum ráðherrum í dag.
Umhverfisráðherra Frakka mun funda með íslenskum ráðherrum í dag. nordicphotos/afp
Ségolène Royal, ráðherra umhverfis- og orkumála og sjálfbærrar þróunar í Frakklandi, kom til Íslands í gær. Heimsóknin er í boði Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Royal mun funda með ráðherrunum tveimur í dag. Auk þess mun hún funda með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, og Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra.

Umhverfisráðherrann franski mun ekki einungis sitja við fundarborðið í heimsókn sinni heldur ætlar hún að kynna sér orkuiðnað hér á landi. Hún mun til dæmis heimsækja borholu við Hellisheiðarvirkjun.

Þá mun Royal undirrita samkomulag um samstarf milli jarðhitaklasa á Íslandi og í Frakklandi í Bláa lóninu um hádegi.

Royal situr á franska þinginu fyrir Sósíalistaflokkinn. Hún var forsetaframbjóðandi flokksins í kosningunum 2007 en tapaði þar fyrir Nicolas Sarkozy. Þá bauð hún sig fram til formanns flokks síns árinu seinna en tapaði fyrir Martine Aubry. Árið 2011 sóttist hún svo eftir umboði flokksins til forsetaframboðs á ný en laut í lægra haldi fyrir fyrrverandi sambýlismanni sínum og barnsföður, François Hollande. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×