Erlent

Árásahrina víða um Tyrkland

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Fjöldi árása beinist gegn lögreglumönnum og hermönnum.
Fjöldi árása beinist gegn lögreglumönnum og hermönnum. Fréttablaðið/AFP
Hrina árása átti sér stað í Tyrklandi í gær. Bílsprengja sprakk fyrir utan lögreglustöð í Istanbúl í gærmorgun. Sprengjan banaði einum árásarmanni og særði tíu manns.

Tvær konur gerðu árás á skrifstofu ræðismanns Bandaríkjanna í Istanbúl í gær. Enginn starfsmaður ræðismannsskrifstofunnar særðist í árásinni. Önnur konan náði að flýja af vettvangi en lögregla skaut og særði hina sem hrópaði: „Ég gerði það fyrir flokkinn,“ þegar hún var handtekin.

Þá sprakk önnur bílsprengja í Istanbúl sem banaði einum lögreglumanni.

Flokkur öfgavinstrimanna hefur lýst yfir ábyrgð á verknaðinum en flokkurinn hefur verið bannaður í Tyrklandi og er skilgreindur sem hryðjuverkasamtök af Tyrklandi, Bandaríkjunum og Evrópusambandinu.

Í Sirnak-héraðinu í suðausturhluta Tyrklands létust fjórir lögregluþjónar þegar sprengja sprakk við vegkant og tyrkneskur hermaður lést þegar árásarmaður skaut á herþyrlu.

Talið er að herskái vængur Kúrdíska verkamannaflokksins (PKK) beri ábyrgð á árásunum í Sirnak en tyrkneskar herþyrlur svöruðu árásunum með að sprengja upp nokkrar herbúðir PKK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×