Skoðun

Þróunarsamvinnustofnun Íslands meiðir

Hannes Í. Ólafsson skrifar
Á upplýsingavef sínum um þróunarmál þann 9. júní 2013 birti Þróunarsamvinnustofnun Íslands palladóm um kennslubókina „Ríkar þjóðir og snauðar“ en undirritaður er höfundur hennar. Í umfjölluninni um bókina á vefsíðunni „Pressan/Eyjan“ eru margar rangfærslur auk ummæla sem vega að starfsheiðri mínum sem námsbókarhöfundar og kennara.

Í pistlinum segir fulltrúi Þróunarsamvinnustofnunar mig hafa skrifað kennslubók um þróunarlönd þar sem ég forðist að ræða um ólæsi, skort á hreinu vatni, sjúkdóma og annað sem einkennir samfélög þar sem unnið er að þróunarsamvinnu. Því er haldið fram að í bókinni sé ekki fjallað um aðstæður fólks í þróunarlöndum heldur reyni ég sem höfundur bókarinnar að fá nemendur til að komast að þeirri niðurstöðu að þróunarsamvinna geri ekkert gagn. Ég er ásakaður um að eiga þátt í að stuðning skorti við þróunarsamvinnu hér á landi. Yfirskrift greinarinnar er „Áróður í skólum gegn þróunarsamvinnu“ Pistilinn skrifar útgáfu- og kynningarstjóri stofnunarinnar og er greinin hluti af vinnuframlagi hans fyrir stofnunina enda skrifuð undir nafni hennar.

Skrifum útgáfu- og kynningastjórans var fylgt eftir í RÚV í þættinum „Sjónmál“ en þátturinn bar undirheitið „Úrelt námsefni sumra framhaldsskóla“. Þar talaði útgáfu- og kynningarstjórinn fyrir munn Þróunarsamvinnustofnunar, endurtók margt af því sem hann hafði áður skrifað og benti á að kennslubókin „Ríkar þjóðir og snauðar“ væri enn notuð í framhaldsskólum. Í næsta þætti var síðan rætt við deildarstjóra í menntamálaráðuneytinu um eftirlit með námsefni í skólum. Hátt var reitt til höggs til að stöðva þann áróður sem undirritaður er sagður stuðla að.

Fjallað um aðstæður fólks

Bókin „Ríkar þjóðir og snauðar“ kom fyrst út árið 2002. Hún er 158 bls. en á vef Þróunarsamvinnustofnunar eru tekin dæmi af sex blaðsíðum og alhæft út frá þeim. Efnistök bókarinnar fylgja áfangalýsingu í félagsfræði þróunarlanda í Aðalnámskrá framhaldsskóla (1999). Í henni er því vitaskuld fjallað um ólæsi, skort á hreinu vatni, sjúkdóma og aðrar áskoranir þróunarlanda. Eins og aðrar félagsfræðibækur, en þvert á fullyrðingar Þróunarsamvinnustofnunar, þá fjallar bókin fyrst og fremst um aðstæður fólks. Í bókinni er hvorki rekinn áróður fyrir þróunarsamvinnu né gegn henni. Hún endurspeglar einungis samfélagslega og fræðilega umræðu og á þeim blaðsíðum sem fjallað er um á vef Þróunarsamvinnustofnunar er kynnt þekkt gagnrýni á þróunarsamvinnu. Án slíkrar umræðu hefði bókin ekki uppfyllt þá gagnrýnu umræðu sem krafist er í félagsfræði.

Í bókinni er fjallað um öll þau viðfangsefni sem haldið er fram að skorti og rækilega bent á að Íslendingar verji mun minna fé til þróunarsamvinnu en nálægar þjóðir. Þar segir m.a. um þróunarsamvinnu „að ekki beri að lasta það hjálparstarf sem opinberar stofnanir vinna hér á landi“ (51) og að ekki eigi að leggja „árar í bát heldur reyna að læra af þeim mistökum sem hafa verið gerð (138)“. Ljóst er að starfsmenn stofnunarinnar höfðu ekki lesið bókina þegar greinin var skrifuð.

Það er mál Gunnars Salvarssonar að koma fram í útvarpsþætti og ráðast að verkum undirritaðs og það er mál þáttarstjórnanda „Sjónmáls“ að kanna aðeins eina hlið á umfjöllunarefni þáttar. Það er hins vegar ábyrgð Þróunarsamvinnustofnunar Íslands þegar hún greiðir fyrir grein þar sem ráðist er að tilteknum einstaklingi og hans verkum, birtir hana á vef sínum og veitir henni skjól og styrk undir nafni stofnunarinnar.

Ekki sæmandi slíkri stofnun

Í lýðræðissamfélagi er mikilvægt að einstaklingar njóti verndar ríkisvaldsins. Ef stoðir samfélagsins vernda ekki mannréttindi getur lýðræðið snúist upp í andhverfu sína og orðið tæki þeirra sem hafa völdin í samfélaginu. Undirritaður hefur nú í rúm tvö ár reynt að fá stofnunina til að biðjast afsökunar á málflutningi sínum. Það hefur ekki borið árangur þar sem stofnunin telur sig hvorki bera lagalega né siðferðilega ábyrgð á því efni sem hún birtir.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands gegnir ábyrgðarmiklu og mikilvægu hlutverki. Ég hlýt því að vona að stofnunin sýni meiri vandvirkni og metnað í þróunarverkefnum sínum en hún hefur gert í greinarskrifum um mig. Opinber stjórnsýslustofnun hlýtur að bera siðferðilega ábyrgð á því sem sett er fram í hennar nafni. Það er ekki sæmandi slíkri stofnun að neita að bera ábyrgð á óvönduðum vinnubrögðum, röngum fullyrðingum og meiðandi ásökunum sem settar eru fram undir hennar nafni. Vonandi er Þróunarsamvinnustofnun Íslands undantekning frá góðri stjórnsýslu í íslensku samfélagi.




Skoðun

Sjá meira


×