Skoðun

Rétt fyrstu viðbrögð í tilefni ætlaðs kynferðisbrots gegn barni

Valgerður Sólnes skrifar
Þegar dómari í sakamáli dæmir um sekt eða sakleysi þarf hann meðal annars að leggja mat á þau sönnunargögn sem liggja fyrir í málinu.

Sönnunargögn í sakamáli

Mikilvægustu sönnunargögnin í málum sem varða kynferðisbrot gegn börnum eru frásagnir gerandans, barnsins og annarra vitna. Hlutverk dómara er meðal annars að meta hvort framburðurinn sé trúverðugur eða ekki og hvort hann hafi þýðingu fyrir úrslit máls. Hefur framburður brotaþola verið stöðugur? Er framburðurinn í samræmi við fyrri framburð? Hvernig horfir hann við framburði ákærða og vitna og öðrum sönnunargögnum? Þetta er meðal spurninga sem dómari þarf að leita svara við.

Aðstaðan getur verið erfið, því í kynferðisbrotamálum eru það oft einungis tveir einstaklingar, gerandi og þolandi, sem geta sagt frá málsatvikum af eigin raun. Þetta er enn vandasamara þegar barn á í hlut.

Börn sem hafa orðið fyrir kynferðisbroti segja oft einstaklingi, sem þau bera traust til, frá atvikinu. Þetta getur verið ættingi, vinur eða faglærður einstaklingur úr nærumhverfinu, til dæmis kennari, sálfræðingur eða starfsmaður félagsþjónustu sveitarfélaga. Á þessum einstaklingum hvílir skylda til að gera barnaverndarnefnd viðvart hafi þeir ástæðu til að ætla að barn hafi orðið fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.

Erfitt getur verið að meta hvenær aðstæður eru með þeim hætti að tilkynna skuli barnaverndarnefnd um þær. Ríkir hagsmunir standa þó til þess að tilkynna allar grunsemdir um hættu á að barn verði beitt kynferðislegu ofbeldi, grun um að slíkt ofbeldi eigi sér stað og grun um að það hafi þegar átt sér stað, óháð því hver er gerandi og hversu alvarlegt ofbeldi hafi átt sér stað. Tilkynnandi þarf ekki að hafa nákvæmar upplýsingar um brot en hann þarf að átta sig á því í hverju hann telur hættuna fyrir barnið vera fólgna.

Enginn má yfirheyra barn nema barnaverndarnefnd og lögregla

Í framkvæmd hefur sú staða oft komið upp að tilkynnandi tilkynnir brot ekki strax til barnaverndarnefndar, heldur rannsakar málið nánar sjálfur, til dæmis með því að ræða við barn og þá jafnvel að viðstöddum aðstandanda eða öðrum brotaþolum, hafi þeir verið fleiri en einn. Slíkt getur verið skaðlegt fyrir úrlausn málsins því þarna skapast hætta á að tilkynnandinn fari út fyrir sitt verksvið án þess að hafa til þess nauðsynlega þekkingu.

Afar brýnt er að tilkynnandi vísi máli rakleiðis til barnaverndarnefndar eða jafnvel lögreglu, ef hann hefur ástæðu til að ætla að brot sé mjög alvarlegt, en reyni ekki að grennslast frekar fyrir um atburðina sjálfur. Barnaverndarnefnd, og eftir atvikum lögregla, tekur síðan skýrslur af barninu samkvæmt þeim vinnubrögðum sem tíðkast við skýrslutökur af svo ungum brotaþolum, til dæmis með aðkomu Barnahúss.

Af hverju skipta rétt viðbrögð máli?

Vandasamt er að yfirheyra börn og lítið má út af bera til að rýra trúverðugleika þeirra. Það hvað barn sagði um kynferðisbrot á fyrri stigum, áður en máli var komið í réttar hendur, getur haft áhrif við mat á hvort dómari getur lagt trúnað á frásögn þess og annarra vitna fyrir dómi – og þar af leiðandi hvort dómarinn geti notað framburðinn við úrlausn máls. Rétt viðbrögð skipta því sköpum svo dómari geti leitt málsatvik í ljós og dæmt um sekt eða sakleysi.




Skoðun

Sjá meira


×