Skoðun

Ólæsi og pólitík

Stefán Jökulsson skrifar
Læsi snýst um ritun og lestur. Þótt fólk hafi náð tökum á því að færa orð í letur getur það þó ekki skrifað um hvað sem er. Ritunin krefst til dæmis þekkingar á umfjöllunarefninu eða reynslu sem tengist því. Svipað gildir um lesturinn. Þeir sem kunna að lesa, geta breytt prentmáli í orð og setningar þegar þeir lesa upphátt eða í hljóði. En þótt þeir séu læsir í þessum skilningi er ekki víst að þeir skilji vel það sem þeir lesa og eitt er víst: Þeir geta ekki lesið sér til gagns um hvað sem er.

Hvers vegna ekki? Ástæðan er sú að orðin flytja ekki fullskapaða merkingu til lesenda; þeir verða að skapa hana á grunni orðanna. Þótt segja megi að samkomulag ríki um merkingu orða í tungumáli, komumst við ekki hjá því að leggja okkar merkingu í þau, ekki síst með hliðsjón af reynslu okkar og þekkingu. Og við getum alls ekki skilið sumt af því sem er talað eða skrifað vegna þess að okkur vantar þann bakgrunn og það samhengi sem er forsenda skilningsins.

„Hittumst undir Jóni Sigurðssyni klukkan þrjú“ stóð á miða á eldhúsborðinu. Ég las orðin og kveikti strax á perunni enda vissi ég að nafnið vísaði til styttu af ákveðnum manni á tilteknum stað. Ég skildi textann vegna þess að ég þekkti til mannsins og staðarins. Annars hefði ég ekki áttað mig á skilaboðunum þótt ég gæti lesið orðin.

Oft sköpum við umræðugrundvöll og nauðsynlegt samhengi með því að tala við aðra, máta okkar skilning við skilning þeirra, njóta þeirrar samlegðar sem verður til þegar fleiri en einn eða jafnvel margir, hver á sínum sjónarhóli, hver með sína reynslu, hjálpast að við að skilja eitthvað sem hefur verið sagt eða ritað.

„Áttu þá við að?…?“, „Ég held að við séum ekki að tala um það sama.“, „Hver finnst þér þá vera kjarni málsins?“, „Ég skil! Ég hef alltaf haldið að?…“, „Þetta er bara lopi, hefur enga merkingu!“. Slíkt samtal um viðeigandi skilning og túlkun heldur áfram endalaust, sem betur fer. Dómarar ræða hvernig beri að skilja og túlka bókstaf laganna miðað við tilteknar aðstæður, nemandi spyr kennara hvort hann geti nefnt dæmi til skýringar, almenningur veltir því fyrir sér, og talar saman um það, hvernig beri að skilja eitthvað sem forsetinn sagði í ræðu.

Snýst einnig um samskipti

Þessi dæmi, og fjölmörg önnur, benda til þess að sköpun merkingar, túlkun og skilningur snúist ekki aðeins um hugsun einstaklinga heldur einnig um samskipti fólks. Þetta á einnig við þá merkingarsköpun sem ritun og lestur snúast um. Sé eitthvað til í því að við skiljum tæpast nokkuð ein má spyrja hversu skynsamlegt sé að reyna mæla lesskilning einstaklinga og fá út tölur eins og raunin er þegar við mælum blóðþrýsting eða púls.

Sú þekking sem börn búa yfir þegar þau byrja í skóla ræður miklu um hve vel þeim gengur að læra að lesa og skrifa. En næringar­ríkt veganesti að þessu leyti er háð uppeldisaðstæðum. Foreldrar vilja víkka og auðga reynsluheim barna sinna en margir hafa hvorki efni á því né tíma til þess. Þeir hafa ekki efni á að fara í leikhús með börnin, á tónleika eða í ferðalög, og þá skortir tíma og orku til að skoða með þeim fugla eða hraun ellegar tala við þau um landsins gagn og nauðsynjar. Þessari hlið lesskilningsins, þessari hápólitísku hlið „ólæsisins“, þarf að gefa gaum vegna þess að ef til vill er einna vænlegast að efla læsi og lesskilning meðal skólanemenda á Íslandi með því að berjast gegn fátækt og auka jöfnuð meðal landsmanna.




Skoðun

Sjá meira


×