Skoðun

Landsbankastjóri illa upplýstur

Vilhelm Jónsson skrifar
Bankastjóri Landsbankans er ekki mjög trúverðugur eftir drottningarviðtal á Eyjunni þar sem hann sá ekkert annað en glóandi gull og að efnahagskerfi landsins hafi sjaldan verið betra, nema þá helst fyrir þrjátíu árum. Hann hélt því fram að góðæristímar hafi átt sér stað þegar hann byrjaði bankaferil sinn árið 1984 og síðan upp úr 1990 hafi tekið við kreppa. Það skyldi ekki vera að bankastjóri fari villur vegar og blandi kvótavæðingu sjávarauðlinda (1983) við bætta afkomu bankanna frekar en almennings, sem gekk í gegnum erfiðustu verðbólguhrinu sem átt hefur sér stað á áttunda- og níunda áratug.

Bankastjóra til upprifjunar var verðbólgan komin í 84,3% á tólf mánaða tímabili. Í kjölfar þessa var gripið til aðgerða sem fólu í sér gengisfellingu, bann við vísitölubindingu launa og í framhaldinu var tekin upp fastgengisstefna. Með þeim aðgerðum hjaðnaði verðbólgan og fór í tæp 30% árið 1984. Áhrif aðgerðanna 1983 höfðu gífurleg áhrif á lífskjör og kaupmátt launa sem skertist vegna afnáms verðtryggingarinnar. Verðbólga var í kringum 30% árin 1984 og 85 en svo rúmlega 20% að meðaltali næstu fjögur ár á eftir.

Tæplega er boðlegt að bankastjóri ríkisbanka sé ekki betur að sér og fari með villandi málflutning, ekki síst þar sem áratuga óðaverðbólga og miklir efnahagserfiðleikar steðjuðu að almenningi á þessum árum sem hann vitnar í sem góðæristíma. Bankastjóri sem talar með slíkum hætti getur vart talist mjög trúverðugur frekar en í öðrum málflutningi sem hann viðhafði, t.a.m. þegar hann hélt því fram að efnahagskerfið og önnur uppbygging væru með traustum og markvissum hætti, ásamt mikilli hagsæld og að heimili væru tiltölulega skuldlítil.

Eflaust er blússandi hagvöxtur hjá bönkunum ekki síst þar sem búið er að stýra fasteignaverði upp í hæstu hæðir að hluta til fyrir tilverknað fjármálastofnana, sem áttu nánast aðra hverja eign sem hefur verið seld eftir hrun, þar sem skammtað var eignum inná fasteignamarkaðinn til að hífa upp söluverð. Eðlilega munu fasteignasalar ekki staðfesta þessa forgangsröðun, að minnsta kosti ekki þeir sem maka krókinn.

Því er þveröfugt farið hjá nýrri kynslóð, ásamt þeim sem hafa misst eignir sínar og fleiri, að geta keypt húsnæði á uppsprengdu verði. Eflaust er skuldsetning og eignarstaða betri hjá mörgum eftir að fasteignaverð skrúfaðist upp en nokkuð ljóst er að tugþúsundir heimila deila ekki skoðun bankastjórans að skuldir séu óverulegar, sé tekið mið af kaup- og greiðslugetu þar sem skuldir heimila hafa vaxið enn frekar.

Fasteignaeigendur á höfuðborgarsvæðinu geta eflaust glaðst yfir þessari þróun, en einhverjir verða samt að borga brúsann. Bankastjórar geta líka brosað þar sem veðsetningarhlutfall útlána er mjög gott og má líkja við að þeir hafi bæði belti og axlabönd á skuldugum fyrirtækjum og heimilum.

Bankastjórn Landsbankans þarf að gera sér ljóst, ásamt fleirum, að það er óásættanlegt að stæra sig af góðri afkomu bankans sem látin er stýrast af vaxtaokri og eignum sem voru hirtar á brunaútsölum. Einnig að átta sig á að meginþorri er ekki að lifa góða tíma svo orðum bankastjóra sé stýrt með öfugum formerkjum. Háttvirtur bankastjóri var ekki spar á að vitna í ábyrgðarkennd sem endurspeglaðist tæplega með því að mergsjúga skuldug heimili og stæra sig af milljarða gróða Landsbankans.



Efnahagsstjórn landsins er ekki eins góð og háttvirtur bankastjóri lætur liggja að og vitnar í hagvöxt sem er meira og minna dreginn áfram af neyslu og óraunhæfri skuldsetningu heimila sem fyrr, ásamt ómældu braski. Það hefur ekkert með það að gera að hagstjórn sé í góðu lagi þó svo ferðamannastraumur sé að stóraukast og sé nánast líflína þjóðarinnar. Margt bendir til þess að þúsundir heimila eigi enn og aftur eftir að ganga í gegnum aðra holskeflu, þó svo bankarnir séu með sitt á hreinu. Lætur þar hæst óraunhæf skuldbinding og sveiflukennt efnahagsástand.

Stjórnvöld geta aldrei lært og sýnt samfélagslega ábyrgð, frekar skal vera þvargað árum saman um það sem ætti að vera svo augljóst. Lætur þar hæst óraunhæft vaxtastig og verðtrygging sem hvorki heimili eða fyrirtæki geta staðið undir þegar til lengri tíma er litið. Verðtrygging á að hluta til rétt á sér þar sem lánveitandi og -takandi eiga að axla ábyrgð saman, einnig þurfa stjórnvöld að sjá til þess að eðlileg launakjör geti þrifist í takt við lánskjör og vaxtastig, ásamt góðri stjórnsýslu.

Á venjulegu mannamáli getur aldrei gengið að laun haldi ekki sama jafnvægi og skuldir, sama hversu mikið reynt er að öfugtúlka staðreyndir, jafnvel þó svo eignir hækki í takt við hækkun á lánskjaravísutölu verður greiðslugeta ekki meiri við það.

Hver nefndin af annarri er skipuð til að rífa upp húsnæðisvanda sem er mikill, þó svo flestum ætti að verða ljóst að mun aldrei verða drifinn áfram með eðlilegum hætti, sé ekki látið af vaxtaokri og óábyrgð. Meðan sveiflukennd og óraunhæf uppbygging á sér stað þar sem látið er stjórnast af ómældri skuldsetningu mun fátt breytast til betri vegar og enn síður eigi uppbygging sér stað í miðborginni fyrir þá sem minna mega sín.

Ef tekið er mið af stjórnsýslu síðustu áratuga getur núverandi gjaldmiðill aldrei gengið, ekki einu sinni fyrir þá tekjuhærri. Eflaust er krónan góð til hagstjórnar fyrir fjármálaráðherra til að rétta þjóðarskútuna af, og geta keyrt upp atvinnustig fljótt eftir efnahagsþrengingar sem eru yfirleitt heimatilbúnar. Sá fórnarkostnaður er bara alltof mikill þar sem verulegur fjöldi heimila lendir ítrekað í miklum þrengingum svo vægt sé til orða tekið. Mun frekar má kenna lélegri stjórn um sviptingar og þrengingar sem hafa átt sér stað síðustu áratugi frekar en niðursveiflum erlendis frá nema að litlum hluta. Á venjulegu mannamáli liggur oftast að baki óstjórn í íslensku efnahagslífi.

Landsbankastjóra til upplýsingar er bankinn búinn að fara mun verr með heimili landsins heldur en viðskiptavinir hans, sem töpuðu oft á tíðum aleigu sinni þó svo bankinn geti að hluta til skýlt sér bak við nýja kennitölu, sem alltof margir stjórnast af.




Skoðun

Sjá meira


×