Erlent

Vill þjálfa borgara fyrir mögulegt kjarnorkustríð

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Putin og Dmitry Rogozin.
Vladimir Putin og Dmitry Rogozin. Vísir/EPA
Yfirvöld í Rússlandi ættu að endurvekja þjálfun borgara fyrir mögulega kjarnorkustyrjöld. Þetta segir Dmitry Rogozin, aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, en slíkt hefur ekki verið gert frá tímum kalda stríðsins.

Þetta sagði Rogozin eftir fund öryggisráðs Rússlands, sem Vladimir Putin stýrir, í dag. Hann sagði Bandaríkin raska jafnvægi kjarnorkuveldanna með því að þróa ný vopn og að Rússar yrðu að bregðast við. Það yrði gert svo enginn myndi fá þá flugu í höfuðið að gera kjarnorkuárás á Rússa.

Rogozin vill einnig byggja aftur neðanjarðarbyrgi sem voru byggð á tímum kalda stríðsins, samkvæmt rússnesku fréttaveitunni TASS, sem er ríkisrekin.

Reuters fréttaveitan segir hins vegar að almennir borgarar hafi ekki haft mikla trú á slíkri þjálfun á árum áður. Þá þurftu allir að vera þjálfaðir í réttum viðbrögðum, eins og að setja upp varnargrímur og slíkt. Þjálfuninni var hætt þegar Mikhail Gorbachev var við völd.

Samband Bandaríkjanna og Rússlands hefur versnað til muna á síðustu árum og þá meðal annars vegna átakanna í Úkraínu og í Sýrlandi. Putin hefur margsinnis sagt að aukin ítök Bandaríkjanna í Austur-Evrópu væri ógnun við öryggi Rússlands. Hann hefur einnig sagt að eldflaugavarnir sem Bandaríkin ætla sér að reisa í Austur-Evrópu, sé ætlað að draga úr kjarnorkumætti Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×