Erlent

Ritstjórar hvetja yfirvöld til að verja blaðamenn

Samúel Karl Ólason skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/EPA
Meira en 50 ritstjórar alþjóðlegra fjölmiðla hafa skrifað bréf til Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands. Tilefni bréfaskrifanna er sífellt versnandi ástand fjölmiðlunar þar í landi. Á sunnudaginn verður gengið til kosninga í Tyrklandi, en á síðustu tveimur mánuðum hefur skrifstofum fjölmiðla verið lokað og ráðist hefur verið á blaðamenn og þeir handteknir.

„Við hvetjum þig til að beita áhrifum þínum til að tryggja að blaðamenn, hvort sem þeir eru tyrkneskir ríkisborgarar eða meðlimir alþjóðapressunnar, séu verndaðir og að þeir geti unnið vinnu sína án hindrana,“ stóð í bréfinu.

Ritstjórarnir segja að það að yfirvöld í Tyrklandi hafi ekki verndað blaðamenn í aðdraganda kosninganna hafi skaðað orðspor Tyrklands á alþjóðavísu og dregið úr lýðræði.

Þeir segjast hafa áhyggjur yfir því að aðgerðirnar sem beinst hafa gegn fjölmiðlum í landinu hafi verið ætlaðar til að þagga í gagnrýnisröddum gegn stjórnvöldum fyrir kosningarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×