Innlent

Um tvö nauðgunarmál að ræða

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar gróf kynferðisbrot sem nemandi við Háskólann í Reykjavík á að hafa framið gegn tveimur konum, sem eru samnemendur hans, í október. Málið hefur vakið óhug meðal nemenda og kennara við skólann.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að lögreglan hefði til rannsóknar kynferðisbrot sem á að hafa átt sér stað á bekkjarskemmtun nemenda Háskólans í Reykjavík. Um er að ræða tvær konur og karlmann á þrítugsaldri, sem öll stunda nám við frumgreinadeild skólans. Samkvæmt heimildum fréttastofu er um að ræða tvö atvik, þar sem maðurinn beitti konurnar grófu kynferðislegu ofbeldi, sitt hvorn daginn í október. Nemendur deildarinnar höfðu í bæði skiptin ákveðið að hittast á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur til að lyfta sér upp.

Málið hefur vakið mikinn óhug meðal nemenda og kennara í Háskólanum í Reykjavík. Í samtali við fréttastofu í dag vildi ekki lögreglan ekki staðfesta að búið væri að leggja fram kærur í málunum, en gat þó staðfest að til rannsóknar væru kynferðisbrot sem stemma við umræddan tíma.

Bæði fórnarlömbin og meintur gerandi eru enn nemendur við HR. Forsvarsmenn skólans vildu ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins sen vísuðu í tilkynningu sem þeir sendu frá sér í gærkvöld. Þar segir að komið hafi fram upplýsingar um alvarlegt atvik innan hóps nemenda í Frumgreinadeild HR. Háskólinn hafi boðið þeim nemendum sem málið snertir alla þá aðstoð sem hann getur veitt. Enn fremur hefur skólinn lagt áherslu á að nám hópsins geti haldið áfram með sem eðlilegustum hætti og að hlutaðeigandi nemendur þurfi ekki að hafa samskipti. Að öðru leiti getur skólinn ekki tjáð sig um málið, enda eru eðlileg ferli fyrir slík mál hjá þar til bærum yfirvöldum.


Tengdar fréttir

Grunur um nauðgun á bekkjarskemmtun HR

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins rannsakar lögreglan kynferðisbrot sem sagt er hafa átt sér stað á bekkjarskemmtun nemenda HR. Nemandi er sagður hafa nauðgað tveimur samnemendum sínum. Skólinn hefur gripið til aðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×