Erlent

Bush eldri úthúðar bæði Donald Rumsfeld og Dick Cheney

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Rumsfeld og Cheney ásamt George W. Bush, þáverandi forseta, í Hvíta húsinu árið 2006.
Rumsfeld og Cheney ásamt George W. Bush, þáverandi forseta, í Hvíta húsinu árið 2006. Fréttablaðið/EPA
George H.W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, segir Donald Rumsfeld hafa verið hrokagikk og Dick Cheney of mikinn harðlínumann í kjölfar árásanna 11. september 2001.

Þeir hafi reynst syni sínum, George W. Bush, illa og viðbrögð þeirra við árásunum hafi verið vanhugsuð.

Þetta er haft eftir Bush eldri í nýrri ævisögu hans, sem Jon Mecham skrifar og kemur út í næstu viku.

Bush eldri gagnrýnir þar einnig son sinn fyrir æsingatal í kjölfar atburðanna 11. september, og nefnir þar sem dæmi að allt tal um „öxulveldi hins illa“ hafi ekki reynst hjálplegt.

Þá gagnrýnir hann son sinn einnig fyrir að hafa látið Cheney, sem þá var varaforseti, komast upp með að halda úti „sínu eigin utanríkisráðuneyti“.

Cheney var varnarmálaráðherra í stjórn Bush eldri árin 1989-93, en síðan varaforseti árin 2001-2009, þegar Bush yngri var forseti. Donald Rumsfeld var svo varnarmálaráðherra í stjórn Bush yngri árin 2001-2006.

Bush segir að eftir 11. september hafi Cheney „orðið mikill harðlínumaður og mjög ólíkur þeim Cheney, sem ég þekkti og starfaði með“. Viðbrögðin við 11. september hafi verið heimskuleg: „Just iron-ass.“

Cheney sjálfur sagðist í gær vera nokkuð ánægður með þessa „járns­rass-líkingu“. Hann geti hreinlega verið stoltur af því: „Árásirnar 11. september voru verri en Pearl Harbour,“ sagði hann í viðtali við sjónvarpsstöðina Fox.

Um Rumsfeld segir Bush síðan að þeir hafi aldrei verið mjög nánir hvort eð er: „Það er þarna ákveðinn skortur á auðmýkt, skortur á því að átta sig á því sem aðrir eru að hugsa.“

Hins vegar sagðist Bush eldri standa með syni sínum, þrátt fyrir allt: „Hann er sonur minn, hann gerði sitt besta og ég stend með honum. Það er svo einfalt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×