Erlent

Sannfærð um kosningasigur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Stuðningsmenn Aung San Suu Kyi fögnuðu ákaft í gær, þótt endanlegar tölur væru ekki komnar.
Stuðningsmenn Aung San Suu Kyi fögnuðu ákaft í gær, þótt endanlegar tölur væru ekki komnar. Nordicphotos/AFP
Stórsigur Lýðræðisfylkingarinnar í Búrma, sem einnig er nefnt Mjanmar, virtist í gær nokkuð augljós, þótt enn væri ekki búið að birta tölur úr öllum kjördæmum. 

Kjörstjórn fór sér hægt í gær og birti tölurnar í smáum skömmtum með nokkurra klukkutíma millibili. Haldi þessi hægagangur áfram liggja endanleg úrslit ekki fyrir fyrr en eftir nokkra daga.

„Við fengum yfir 70 prósent á landsvísu,“ fullyrti U Win Htein, einn af forystumönnum Lýðræðisfylkingarinnar, þrátt fyrir að úrslitin væru ekki í höfn. „Við getum sagt þetta vera stórsigur.“

Nóbelsverðlaunahafinn Aung San Suu Kyi, leiðtogi flokksins, fengi þar með tækifæri til þess að gera miklar breytingar á stjórnmálum í Búrma, en hún hefur áratugum saman barist fyrir lýðræðisumbótum í þessu einangraða herstjórnarríki.

Sjálf fór hún varlega í yfirlýsingarnar í gær, en sagði kjósendur vera búna að átta sig á úrslitunum: „Þeir sem tapa þurfa að takast á við tapið af hugrekki og stillingu, en sigurvegarinn þarf að sýna auðmýkt og göfuglyndi.“

Síðdegis í gær lá fyrir að Lýðræðisfylkingin hafði fengið langflest þingsætin í þeim kjördæmum, sem búið var að telja í – eða 50 þingsæti af 52. Einungis tvö komu í hlut stjórnarflokksins, sem nýtur stuðnings hersins.

Kosið var um 330 þingsæti af 440 í neðri deild þingsins og 168 af 224 sætum í efri deildinni. Ekki er því kosið um 25 prósent þingsætanna, sem sjálfkrafa koma í hlut hersins.

Þetta þýðir líka að Lýðræðisfylkingin þarf að fá 67 prósent þeirra þingsæta, sem kosið er um, til að ná meirihluta og þar með geta tekið við stjórn landsins af herforingjastjórn­inni, sem hefur ráðið þar áratugum saman. Mikil óvissa ríkir hins vegar um framhaldið, hvort sem herinn missir meirihlutann eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×