Erlent

Lýðræðisfylking Suu Kyi vann stórsigur í kosningum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Stuðningsmaður Lýðræðisfylkingarinnar stendur fyrir framan mynd af Aung San Suu Kyi. Fréttablaðið/EPA
Stuðningsmaður Lýðræðisfylkingarinnar stendur fyrir framan mynd af Aung San Suu Kyi. Fréttablaðið/EPA
Lýðræðisfylkingin, stjórnmálaflokkur Nóbelsverðlaunahafans Aung San Suu Kyi, hefur þegar tryggt sér tvö af hverjum þremur mögulegum þingsætum á þjóðþingi Búrma í kjölfar kosninga sem haldnar voru á sunnudag.

Fréttastofa BBC greindi frá því í gær að þegar hefði verið tilkynnt um skipan áttatíu prósenta sæta á þinginu sem kosið var um. Sætin á þinginu eru alls 664 en samkvæmt lögum skipar herinn í fjórða hvert sæti.

Fyrir kosningarnar, fyrstu opnu kosningar í ríkinu í 25 ár, var ljóst að Lýðræðisfylkingin þyrfti að fá tvo þriðju allra sæta á þinginu svo flokkurinn fengi einn að velja forseta ríkisins og binda enda á áratugalanga herforingjastjórn.

Suu Kyi sagði við fjölmiðla eftir að úrslitin voru ljós að hún myndi þó sýna fullan samstarfsvilja og að ríkisstjórn Lýðræðisfylkingarinnar myndi taka tillit til annarra flokka sem og hersins. Þá hafa fráfarandi forseti, Thein Sein og höfuðsmenn hersins lýst því yfir að þeir muni una niðurstöðu kosninganna.

Þrátt fyrir mikinn meirihluta Lýðræðisfylkingarinnar hefur herinn enn nógu mörg þingsæti til að geta beitt neitunarvaldi á allar stjórnarskrárbreytingar. Þar að auki getur Suu Kyi sjálf ekki sest í stól forseta þar sem hún á börn með erlendum maka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×