KR-ingar eru ofar í töflunni, með að flestra mati betra lið á pappírnum, höfðu unnið þrjá bikarmeistaratitla á síðustu fjórum árum og mættu löskuðu liði sem hafði tapað þremur deildarleikjum í röð. Það benti því flest til þess að KR bætti einum bikar enn við safnið. En líkt og í fyrri leik liðanna í sumar þá var KR-liðið aðeins skugginn af sjálfu sér. Kannski má keyra upp dramatíkina og líkja þessu við álög, svokölluð Óla-álög.
KR-ingar eru búnir að mæta liðum Ólafs Jóhannessonar þrettán sinnum í deild og bikar á undanförnum tólf árum og uppskeran er aðeins eitt fátæklegt stig. Lið Ólafs (Valur í sumar og FH 2003-2007) hafa unnið tólf leiki og markatalan er 30 mörk í plús (35-5). Fyrsti leikurinn af þessum þrettán var einmitt eftirminnilegur 7-0 sigur FH á nýkrýndum Íslandsmeisturum KR í lokaumferðinni 2007.
Lið Ólafs hafa ekki aðeins unnið KR-liðið níu sinnum í röð heldur hafa þau unnið sjö síðustu leiki með tveimur mörkum eða meira. Markatala KR-inga á síðustu 810 mínútum á móti lærisveinum Ólafs er 23-2 þeim í óhag.
Leikirnir í sumar hafa aðeins hert tökin. Tveir sannfærandi sigrar Valsmanna, fimm Valsmörk og ekkert KR-mark. Það voru þó ekki KR-álögin sem voru Ólafi hugfengin í leikslok heldur sú staðreynd að hann var búinn að koma Hlíðarendafélaginu í Evrópufótbolta á fyrsta ári.
„Ég átti kannski ekki von á því að taka titil á fyrsta ári en við erum með fínt lið og stysta leiðin til þess að komast í Evrópukeppni er að vinna bikarinn,“ sagði Ólafur.
„Við vorum miklu betri en KR-ingarnir allan tímann. Við fengum þrjú til fjögur dauðafæri sem við nýttum ekki. Á tímabili var ég hræddur um að þeir myndu refsa okkur fyrir að nýta ekki færin okkar. Sem betur fer gerðist það ekki,“ sagði Ólafur.

„Óli talaði mikið um það að skapa samheldni í liðinu og honum og Bjössa tókst það vel, þeir hafa unnið frábært starf á þessu ári,“ sagði Bjarni Ólafur.
Ólafur Jóhannesson hefur nú unnið titil á síðustu fimm tímabilum sínum með úrvalsdeildarlið en síðasti titill hans með FH var einmitt bikarmeistaratitill haustið 2007. Þrjú tímabil á undan hafði liðið unnið Íslandsmeistaratitilinn.
Ólafur hefur nú þegar tekið einn titil af KR-ingum í sumar og einhverjir KR-ingar eru eflaust farnir að hafa áhyggjur af deildarleik liðanna á Alvogenvellinum í 18. umferð Pepsi-deildarinnar í lok mánaðarins.

Ólafur með Val
Bikarúrslitaleikur 2015
-2 (Valur vann 2-0 á Laugardalsvelli)
7. umferð 2015
-3 (Valur vann 3-0 á Hlíðarenda)
Ólafur með FH
15. umferð 2007
-4 (FH vann 5-1 í Kaplakrika)
6. umferð 2007
-2 (FH vann 2-0 á KR-velli)
10. umferð 2006
-2 (FH vann 2-0 í Kaplakrika)
1. umferð 2006
-3 (FH vann 3-0 á KR-velli)
13. umferð 2005
-2 (FH vann 2-0 í Kaplakrika)
4. umferð 2005
-1 (FH vann 1-0 á KR-velli)
8 liða úrslit bikarsins 2004
-2 (FH vann 3-1)
---
9. umferð 2004
0 (1-1 jafntefli í Kaplakrika)
1. umferð 2003
-1 (FH vann 1-0 á KR-velli)
Undanúrslit bikarsins 2003
-1 (FH vann 3-2 á Laugardalsvelli)
18. umferð 2003
-7 (FH vann 7-0 í Kaplakrika)
- Síðasti sigur KR á liði Ólafs var 8. júlí 2003. KR vann 2-1 á KR-velli með mörkum Garðbæinganna Garðars Jóhannssonar og Veigars Páls Gunnarssonar.