Erlent

Flokkur Erdogans vann stórsigur í kosningunum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Stuðningsmenn Erdogans fagna sigri.
Stuðningsmenn Erdogans fagna sigri. Nordicphotos/AFP
Réttlætis- og þróunarflokkur Tyrklands (AKP) tryggði sér á ný hreinan meirihluta á tyrkneska þinginu í þingkosningum í gær og Lýðræðisflokkur fólksins (HDP), flokkur Kúrda, hélst inni a þingi líkt og þjóðernishyggjuflokkurinn MHP. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurin, Lýðveldisflokkurinn (CHP), hlaut svipaða kosningu og síðast.

Kosið var í gær í annað skipti á árinu. Í júní var einnig kosið en þá náði AKP ekki hreinum meirihluta og ekkert gekk að mynda samsteypustjórn. Því var ákveðið að boða til kosninga að nýju.

550 sæti eru á tyrkneska þinginu. AKP og CHP bæta við sig þingmönnum á milli kosninga. AKP fara úr 258 í 316 og CHP úr 132 í 134. HDP verða með 59 þingmenn en voru með 80. MHP voru einnig með 80 en verða nú með 41.

AKP er flokkur sitjandi forsætisráðherra, Ahmet Davutoglu, og forseta, Recep Tayyip Erdogan, sem stofnaði flokkinn árið 2001.

„Dagurinn í dag markar stórsigur fyrir lýðræðið og fólkið í landinu,“ sagði Davutoglu í ávarpi til stuðningsmanna í tyrknesku borginni Konya í gær. „Vonandi munum við þjóna ykkur vel næstu fjögur árin.“

Stuðningsmenn AKP flykktust út á götur til að fagna niðurstöðunum og lofuðu Allah og Erdogan. Hins vegar var enga gleði að finna á meðal stuðningsmanna HDP í kúrdísku borginni Diyarbakir þar sem lögregla varpaði táragasi á mótmælendur sem voru ósáttir við úrslitin.

Sigur manna Erdogans var ekki í takt við skoðanakannanir. Flokknum var spáð sams konar fylgi og í síðustu kosningum en allt kom fyrir ekki og mun AKP fara með stjórntaumana áfram en það hefur flokkurinn gert frá árinu 2002.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×