Erlent

Skera niður í Evrópu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hagel kynnti umsvifamiklar niðurskurðaraðgerðir hersins.
Hagel kynnti umsvifamiklar niðurskurðaraðgerðir hersins. fréttablaðið/ap
Bandarísk stjórnvöld ætla að loka 15 herstöðvum víðs vegar í Evrópu. Chuck Hagel, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, staðfesti þetta í gær.

Með þessu er áætlað að spara ríkissjóði Bandaríkjanna 500 milljónir dala á hverju ári, eða sem samsvarar 65 milljörðum króna. Bandaríski herinn mun að auki beina athygli sinni meira að Asíu. Í dag eru Bandaríkjamenn með 60 þúsund hermenn í Evrópu, flestir þeirra eru í Þýskalandi, á Ítalíu og Bretlandi. Fjöldi hermanna verður sá sami en þeir munu flytja sig á milli staða.

Hagel sagði í gær að hann hefði skilning á því að einhverjir myndu missa störf sín þegar herliðin færu. Á sama tíma þakkaði hann fyrir þann stuðning sem íbúar á hverjum stað hefðu sýnt hernum.

„Ég veit að þessi niðurstaða mun hafa í för með sér að störfum mun fækka sumstaðar vegna þessa. Og ég met mikils stuðninginn sem við höfum fengið á þessum svæðum undanfarin ár,“ sagði Hagel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×