Lífið

Íslenskar nornir og galdrar þeirra

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Sex íslenskar nornir segja frá göldrum sínum.
Sex íslenskar nornir segja frá göldrum sínum. vísir/ernir
Getum við gert eitthvað til að hafa áhrif á framtíð okkar? Eða rætast óskir okkar af tilviljun? Er til eitthvað æðra manninum, máttur eða yfirnáttúrulegt afl sem við getum þegið kraft frá? 



Nornir leynast víða í samfélagi okkar. Hér er verið að tala um konur sem beita göldrum, nýta náttúruöfl eða annan kraft til að hafa áhrif á framtíðina. Í samtali við íslenskar konur sem kallaðar eru nornir af samferðamönnum eða skilgreina sjálfar sig sem nornir kom í ljós að hugmynd blaðamanns um nornir væri ansi stöðluð og lituð fordómum.

Sumar nornir eru reyndar fullar af dulúð og segjast búa yfir yfirnáttúrulegum krafti en flestar segja lífsstílinn snúast einfaldlega um að trúa og treysta. Að rækta innsæi sitt og þiggja kraft frá náttúrunni. Síðan beita þær innsæinu til að hjálpa öðrum að leita inn á við og finna réttu svörin við lífsins spurningum. Líkja má göldrum þeirra við galdur markþjálfans sem hjálpar þér að ná markmiðum þinum eða sáluhjálpara sem hjálpar þér að létta á hjarta þínu. Aðrar búa til smyrsli eða seyði sem hjálpa þér að bæta heilsu þína. Allar eru þær sammála um að fyrst og fremst snúist galdrar um gleði og kærleika – en það þurfi að bera virðingu fyrir öflunum.

Dr. Ólína Þorvarðardóttir tekur dæmi um klapplið sem reynir að fremja galdra - þ.e. að klappa taktfast og hrópa í von um að hafa áhrif á gang leiksins.
Galdrar og trúarbrögð náskyld 

Galdrar hafa fylgt mannkyninu eins lengi og það hefur verið til. Dr. Ólína Þorvarðardóttir þjóðfræðingur skrifaði doktorsritgerð sína um galdra á Íslandi fyrr á öldum og er því ansi fróð um rætur íslenskra norna.

„Íslendingar stunduðu aðallega þjóðlegan galdur og á 17. öld var sá galdur stundaður sem einkaathöfn í leynum. Galdur var ekki félagslegt fyrirbæri hérlendis á þeim tíma. Nú á dögum er galdur aftur að koma inn sem magiu-tengd tíska og þess eru dæmi hérlendis að fólk hittist í hópum – aðallega konur – og reyni fyrir sér með ýmislegt. Víða úti í heimi eru til virk samfélög norna sem halda samkomur og nornaþing þangað sem fólk kemur alls staðar að. Til eru efnismiklar vefsíður sem hægt er að skoða tengdar þessu og göldrum almennt.“

Ólína segir galdra tengjast frumstæðri þörf mannsins til þess að hafa áhrif á líf sitt, aðstæður og umhverfi, og að þeir séu nátengdir trúarbrögðum. 

„Þörf mannsins til að hafa áhrif á afkomu sína og líðan, umhverfi sitt og framtíð, birtist bæði í trúarbrögðum og galdraathöfnum,“ segir hún. „Það sem skilur á milli galdraiðju í okkar menningu og trúarbragða er að í galdri eru náttúruöflin í aðalhlutverki en í trúarbrögðum er það guðlegur máttur. Frumstæð tenging okkar við náttúruöflin hefur fylgt okkur frá örófi alda og hefur þróast yfir í trúarbrögð og galdraiðkun en birtist líka í listsköpun og hóphegðun af ýmsum toga.“

Ólína segir margt í hegðun fólks í hinu daglegu lífi vera nátengt galdraiðju án þess að fólk geri sér grein fyrir því.

„Þegar fólk mætir á íþróttakappleiki og öskrar af öllum lífs og sálar kröftum á kempurnar, tekur þátt í klappstýrusiðum með söngvum og bylgjum, þá er mannfjöldinn að samstilla sig í taktvissri hegðun með hrópum og hreyfingum til að hafa áhrif á gang leiksins. Þetta er í raun galdraathöfn sem byggir á samstillingu og hóphegðun, nauðalík þekktum og gömlum stríðsgöldrum sem iðkaðir hafa verið á Fílabeinsströnd Afríku. Þegar fólk samstillir krafta sína getur svo margt gerst sem erfitt er að útskýra – eins og galdur – enda byggja ýmsir galdrar á hópefli.“

Tanya segir fólk hafa hræðst hana þegar hún var lítil en hún skildi eðli sitt betur þegar hún lærði um shamanisma úr indjánafræðum.
Hefði verið brennd á báli í gamla daga 



Ég hef verið kölluð norn frá því ég var lítil stelpa og ég er líklega norn, þótt ég myndi frekar kalla mig vísindakonu,“ segir Tanya Lind Pollock en hún er alin upp við afar blandaða lífspeki – allt frá náttúrutrú og kristinni trú til indjánafræða.

„Íslenska fjölskyldan mín er yndislega spes, allir mjög náttúrutengdir og margir mjög næmir. Það hefur alltaf verið sjálfsagður hlutur í minni fjölskyldu að vera berdreyminn, sjá drauga, álfa og vera með sterkt innsæi. Einnig læra inn á jurtir og óhefðbundnar lækningar. Það hefur bara verið hluti af mínu uppeldi að læra inn á öfl náttúrunnar og bera virðingu fyrir henni.“

Föðurætt Tanyu er að hluta til frá Norður-Ameríku, á rætur að rekja til Írlands og indjána, og er einnig mjög andlega sinnuð en á annan hátt.

„Þau eru mörg mjög strangtrúuð, fara oft í kirkju og alltaf að biðja bænir. Einnig er indjánatrú undirliggjandi. Þar er norn kölluð shaman og ég var alltaf kölluð það þegar ég var lítil. Það var eitthvað við mig, ég hræddi fólk og það vissi ekki hvort ég væri engill eða einhvers konar andskoti. En indjánarnir í ættinni kenndu mér síðan um shamanisma þegar ég stálpaðist og þá fór þetta að skýrast fyrir mér og ég skildi eðli mitt betur.“

Tanya segist vera mjög forvitin og skoða mikið vísindi til að skilja það sem margir telja vera yfirnáttúrulegt.

„Ég reyni að skýra tilvist annarra vídda, árur og drauma með vísindum. Einnig hvernig ég geti vitað hluti fyrirfram og hvernig hægt sé að virkja og vinna með orku. Því meira sem ég rannsaka hvernig allt virkar, því einfaldara verður það. Fyrir mér snýst þetta um ljós, víbra og tíðni. Þannig virkar alheimurinn. Allt hefur bylgjur og það eru bylgjur alls staðar í kringum okkur en það er bara spurning hvernig við stillum okkur inn, eins og útvarp. Flestir kannast við að ganga inn í herbergi og án þess að vita það fyrirfram þá finnur maður að fólk hafi verið að rífast þarna inni. Eða bara að hitta einhvern og skynja góða nærveru. Þetta er ekki vúdú, heldur er þetta í eðli flestra lifandi vera – þessi skynjun leiðir okkur frá hættum og að öryggi. Maður finnur í sér hvað er rétt og hvað samsvarar orku manns,“ segir Tanya og ítrekar að fyrir henni séu galdrar vísindi og að allir séu að galdra eitthvað.

„Fólk er bara mismeðvitað. Það er ekki mikill munur á óskum og bænum – og því sem ég geri. Flestir hafa einhver markmið í lífinu og vinna að því að gera það að veruleika. Það er galdur í því.“



Opnar hjarta ríkisstjórnarinnar 

Tanya iðkar ekki eina sérstaka trú heldur sækir reynslu og vitneskju frá nokkrum stöðum, til dæmis úr shamanisma og ásatrú. 

„Ég fylgist vel með náttúrunni, hvernig dýr haga sér, skýjunum, sjónum, vindinum, jörðinni, sólinni og tunglinu. Ég hef oftar en ekki gefið áreiðanlegri veðurfréttir en veðurstofan og ég finn þegar það er spenna í jörðinni sem boðar gos eða stóra skjálfta. Náttúran gefur skýr skilaboð fyrir þá sem hlusta.“ 

Með þessari meðvitund hefur Tanya áttað sig á að athafnir og bænir geti verið kröftug leið til að virkja orkuna. 

„Ég bý til altari með táknum, kristölum, beinum, fjöðrum og reykelsi til að skapa aðstæður sem hjálpa mér að beina orku í vissa átt. Ég blessa eitthvað og sendi ljós út í heim, gef þakkir og bið bænir. Ef ég er að gera eitthvað mjög mikilvægt eins og að reyna að opna hjarta ríkisstjórnarinnar, þá er ég með athöfn á fullu tungli og held áfram í nokkra daga á eftir til þess að gefa aukakraft í seiðinn.“

Tanya hefur aðstoðað fólk með bænum, með því að hreinsa orku eða verið milliliður þegar það þarf að ræða við álfa og aðrar náttúruvættir. Svo er hún líka mjög tengd geimverum en hún segir það vera lengri sögu. Hún segist alltaf vera að kukla eitthvað en sé alls ekki að reyna að vera eitthvað eða hafa sérstök áhrif. 

„Ég er frjáls í dag og get verið samkvæm sjálfri mér hér á Íslandi. Ég er umhyggjusöm og glöð, ég vil vera hreinn spegill fyrir heiminn og gefa frá mér ástarljós og jákvæða strauma. Ég fæ mikla ást frá heiminum til baka. Það er nógu gott fyrir mig og er bara minn eðlilegi lífsstíll. Ég hef bara alltaf verið svona – í gegnum margar lífstíðir. Ég get ekki annað en unnið með þessu. Ég hefði svo sannarlega verið brennd á báli í gamla daga og þakka bara fyrir að það er ekki lengur gert.“

Eyrún Heiða les í rúnir fyrir ljósmyndarann.vísir/ernir
Rúnirnar opna hugann

„Ég er norn, já. En ég hef enga yfirnáttúrulega hæfileika,“ segir Eyrún Heiða. „Það að vera norn er hluti af því hver þú ert. Ef þú þarft að fara í búning og breyta heima hjá þér til að vera norn, þá ertu ekki norn. Þær sem eru í náttúrulækningum geta kallað sig nornir og líka þær sem spá í tarotspil. Það geta allir kallað sig norn. Það þarf ekki mikið til, bara að vilja það.“

Eyrún Heiða segir galdur vera eitthvað sem þú getur ekki útskýrt og sé að finna í öllum trúarbrögðum. „Það er margt í lífinu, í vísindum, eðlisfræði og efnafræði til dæmis, sem erfitt er að útskýra og við köllum það galdur. Maður veit að það er ekkert yfirnáttúrulegt, heldur eitthvert náttúruafl sem maður nær bara ekki alveg utan um.“

Eyrún segir fullt af fólki reyna að galdra í sínu daglega lífi án þess að hafa hugmynd um það. „Þegar fólk reynir að hafa áhrif á alheiminn án þess að fara rökfræðilegu leiðina, þá er það að reyna að galdra. Eins og þegar þú biður kökuna um að falla ekki, þegar þú tekur hana úr ofninum eða mantrar „ekki rautt ljós, ekki rautt ljós“, þegar þú ert að keyra í umferðinni. Það er í okkar mannlega eðli að reyna að hafa áhrif á alheiminn en við erum svo vísindalega þenkjandi að það fer gegn trú okkar að viðurkenna það eða ræða af hverju við gerum þetta.“

Eyrún Heiða notar meðal annars tarotspil og rúnir við sína galdra.

„Fólk dregur rúnir þegar einhver spurning er að veltast um í því eða öðrum. Oft er hugurinn fastur þegar maður stendur frammi fyrir vandamáli. Þá leggur maður rúnir, sér vandann í nýju ljósi og opnar hugann fyrir nýjum leiðum til að leysa vandann. Rúnirnar leiða þig að lausn en það er ekkert yfirnáttúrulegt í gangi.“

En hvernig eru rúnir notaðar til að galdra? „Ef þú vilt eignast pening þá notar þú férúnina og stingur í vasann eða veskið þitt. Og af því að þú gerðir þennan galdur þá manstu eftir markmiðinu þínu þegar þú snertir rúnina í vasanum eða sérð hana í veskinu. Þetta er bara ein leið í markmiðasetningu, rúnin er tákn fyrir markmiðið. Alveg eins og krossinn í kirkjunni sem minnir kristna á hærra markmið, áminning á ísskápnum um að vera glaður í dag og það að skrifa í spegilinn á morgnana „brostu“. Og eins og fyrir galdur nær maður frekar markmiði sínu.“

Halla sendi fyrstu óskina sína til tunglsins árið 1996 á Gróttu og hún rættist mánuði síðar. Síðan þá er Grótta eftirlætis galdrastaðurinn hennar.vísir/ernir
Tengir við tunglið og sendir óskir

Ég nýti mér tunglganginn einna mest og fylgi honum vel eftir,“ segir Halla Frímannsdóttir sem hefur fengið vegna iðju sinnar viðurnefnið Halla Himintungl. Halla nýtir kunnáttu sína í stjörnuspeki til að haga lífi sínu og hegðun eftir tunglgangi – og þannig fá sem bestan árangur. Á þann hátt fremur hún galdur.

„Á tómu tungli er best að losa sig við eitthvað, loka kafla eða sleppa tökunum. Svo næsta dag kemur nýtt tungl og þá opnar maður fyrir einhverju nýju. Ég sendi óskir á nýju og fullu tungli og einnig er mjög sterkt að vera með fyrirbænir í þessum tunglafstöðum. Svo klippi ég neglur á vaxandi tungli því þá heldur orkan áfram að vaxa í stað þess að hún minnki á minnkandi tungli. Í dag og fram til 21. maí er sólin í nautsmerkinu og svo verður nýtt tungl í nauti þann 18. maí, þetta er góður tími til að vera í sjálfsrækt með líkamann og almennt heilbrigði.“

Skilningur Höllu á göldrum er að hjálpa einhverjum að koma lífi sínu til betri vegar. „Allir geta galdrað en þetta byggist á samvinnu og samkrafti. Ég geri ekkert ein. Það sem ég aftur á móti get hjálpað við er tengingin við náttúruöflin, ég tala við þau og tengi síðan við andann.“

„Ég hef líka hjálpað fólki að opna hjartastöðina þannig að það verði ástfangið.“vísir/ernir
Galdur fyrir frjósemi 

Halla hefur þannig aðstoðað fólk við að tengjast náttúrunni til að fá lausn á ýmiss konar vanda. 

„Ég hef aðstoðað konur við að verða frjórri. Þá gerum við einfalda og skemmtilega galdra saman niðri við hafið og þetta er eitthvað sem allir geta gert. Þá fer maður niður í fjöru, snýr sér í vesturátt og jarðtengir fæturna við jörðina. Síðan stendur maður andspænis hafinu og andar í takt við öldugang hafsins. Inn í lungun og ofan í magastöðina og anda frá þegar sjórinn flæðir út. Þegar öndunin er komin í takt við bárur hafsins vaggar maður sér eins og tré sem blaktir áreynslulaust í loftstraumi og fer þannig dýpra inn í eigin hugleiðslu. Um leið kallar maður á frjósemisorku jarðarinnar og tengir hana við lífsorkuna sem er staðsett í magastöðinni og er móðurstöð sköpunarkraftsins sem við eigum öll innra með okkur. Þannig geta konur orðið frjórri.“

Hefurðu séð árangur af þessu? „Já, og ég hef líka hjálpað fólki að opna hjartastöðina þannig að það verði ástfangið. En ég get ekki gefið upp þann galdur, hann er sérsaumaður að hverjum og einum. En ég læt ekki einhvern verða ástfanginn að ákveðinni manneskju. Það er svartagaldur og ég stunda hann ekki. Ástin er frjáls og hittir í mark þegar hugur og hjarta eru samstillt á að þiggja og njóta.“

Indíana segist vera mjög tengd köttum. Hér er hún ásamt kettinum Krumma.visir/Hilmar Bragi
Nornasamfélagið stórt úti í heimi

Wicca er viss náttúrudýrkun þar sem trúað er alheimsandann og náttúrugyðjan er dýrkuð.

„Wicca er viss heiðni en ég á samt líka mína barnatrú. Ég er viss trúarlegur hræsnari,“ segir Indíana Erna Þorsteinsdóttir og bætir við að hún taki það sem henti henni úr hverjum trúarbrögð og því sé heimili hennar fullt af krossum, fimm arma stjörnum og búddastyttum.

„En náttúran er mín kirkja og ég er mjög tengd tunglinu. Ég notast við kerti, jurtir og fleira og er mest í heilunar-, verndar- og hreinsunargöldrum. Ég er ekki í ástargöldrum eða einhverju slíku, enda vil ég ekki rugla í frjálsum vilja.“

Indíana segir marga dýrka Wicca á Íslandi þótt hvorki séu til formleg samtök eða nornasamkomur skipulagðar. Aftur á móti er slíkt gert úti í heimi.

„Það eru stór samfélög úti í heimi og ég hef ekki tölu á þeim Wicca-grúppum sem ég er í á Facebook. Þar er verið að tala um galdra, gyðjurnar sem við dýrkum og skiptast á ráðum. Það er mikill áhugi á Íslandi því að hér er mikil trú á álfa og vættir og fólk er heillað af því að hér eigi að reisa ásahof.“

Indíönu finnst Íslendingar almennt vera afar frjálslyndir þegar það kemur að göldrum og heiðinni trú. Það er eitthvað sem erlendar nornir öfunda þær íslensku af. „Fólk er ekkert að kippa sér upp við þetta. Jú, jú. Sumir halda að þetta sé tengt djöflinum eða eitthvað grín en fyrir mér er þetta full alvara og alls ekki frá djöflinum. En það eru engir alvarlegir fordómar í gangi.“

„Í gamla daga var þetta kallað að nota brjóstvitið.“vísir/ernir
Galdurinn er að opna á innsæið 



„Ég veit ekki hvort ég er norn en það eru vissulega einhverjir sem kalla mig það,“ segir Þórunn Elísabet. „En ég les í spil.“

Þórunn segir að maður ráði litlu þegar lesið er í tarotspil. Að maður sé bara í raun að lesa, eins og að lesa skáldsögu, og maður ráði ekki framhaldinu. „Galdurinn er að opna á innsæi sitt. Í gamla daga var það kallað að nota brjóstvitið. Maður les með hjartanu, frekar en heilanum. En maður þarf að vera opin og vel tengdur náttúruöflunum. Ég sé stundum fyrir horn, ætli það sé ekki best að orða það þannig.“

En af hverju leitar fólk í að láta spá fyrir sér? „Það er kannski haldið valkvíða og leitar eftir leiðbeiningum. Hversu oft fær maður ekki lánaða dómgreind frá öðrum til að hlusta á sjálfan sig tala eða hugsa og taka ákvarðanir? Maður er að fá staðfestingu á eigin vilja og opinberunin er manns eigin.“

 

Sigga Kling segir allar konur töfrandi, og því vera nornir.vísir/vilhelm
Allar konur eru nornir

„Galdur er annað orð yfir töfra. Konur eru töfrandi,“ segir Sigga Kling sem er þekkt fyrir göldróttar stjörnuspár og gefur dæmi um tvo vinsæla galdra.

Ástargaldur

Tveir steinar eru teknir og sett ást, umhyggja og falleg orð í þá. Svo eru þeir blessaðir saman. Annar steinninn er settur í vasa manneskju sem þú berð hug til en hinn geymir þú í eigin vasa. Að lokum munu steinarnar finna hvor annan á ný.

Nágrannagaldur

Galdur má aðeins leiða gott af sér. Þannig að ef þú vilt losna við nágrannana þá verður þú að óska þeim einhvers betra. Sjávarsalt er tekið og góð orka sett í það, fallegar bænir og ósk um að fólkið fái betri stað til að búa á. Saltinu stráð fyrir framan dyr nágrannanna.

Galdrafárið á Íslandi

  • Árið 1625 hófst Galdrafárið á Íslandi og stóð til 1720. 
  • Hvítagaldur sem átti að leiða gott af sér og svartagaldur sem átti að valda skaða var hvort tveggja talið villutrú og hafði í för með sér dauðarefsingu. 
  • Talið var að galdrafólk seldi djöflinum og árum hans sál sína og fengi í staðinn vald. 
  • 22 karlmenn voru brenndir á báli fyrir galdra á Íslandi og 1 kona.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×