Lífið

Gengið á fimmtán stöðum víðsvegar um landið

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður Göngum saman, hvetur alla til að klæða sig eftir veðri og ganga með félaginu á morgun.
Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður Göngum saman, hvetur alla til að klæða sig eftir veðri og ganga með félaginu á morgun. Vísir/Pjetur
Styrktarfélagið Göngum saman efnir til árlegrar vorgöngu á morgun, mæðradaginn, en gengið verður á fimmtán stöðum um land allt.

„Þetta er í áttunda skipti sem svona stór ganga er haldin um land allt,“ segir Gunnhildur Óskarsdóttir, formaður Göngum saman, glöð í bragði.

Gangan er gjaldfrjáls en göngufólki gefst kostur á að styrkja rannsóknir á brjóstakrabbameini með frjálsum framlögum og hægt verður að kaupa varning frá Göngum saman, meðal annars boli og höfuðklúta hannaða af Guðmundi Jörundssyni og fjölnota innkaupapoka sem hannaðir eru af Sigurborgu Stefánsdóttur.

„Við söfnum fé í rannsóknir á brjóstakrabbameini og göngurnar eru bæði notaðar til þess að vekja athygli á málstaðnum og líka bara á göngum sem leið til heilsueflingar,“ segir hún en Göngum saman er grasrótarfélag og renna öll framlög óskipt í styrktarsjóð félagsins.

„Við erum búnar að styrkja íslenska vísindamenn um fimmtíu milljónir frá árinu 2007 og við stefnum að því að veita 10 milljónir í haust, það er á stefnunni í október sem er mánuður sem er helgaður baráttunni við brjóstakrabbamein.“

Gunnhildur segir gönguna henta allri fjölskyldunni. Í Reykjavík verður gengið frá Háskólatorgi þar sem göngufólki gefst kostur á að spjalla við vísindamenn en gengið verður um miðbæinn.

„Á Háskólatorgi gefst fólki tækifæri á að hitta þá vísindamenn sem við höfum stutt og fræðast um rannsóknirnar,“ segir Gunnhildur en ekki verður um skipulagða fyrirlestra að ræða heldur óformlegt spjall þar sem gestir eiga kost á að fræðast og fá svör við spurningum.

„Nú bara hugsar maður við búum á Íslandi og það er ekkert sérstaklega hlýtt úti en maður bara klæðir sig eftir veðri og tekur þátt í göngunni,“ segir Gunnhildur hress og hvetur sem allra flesta til að taka þátt.

Landssamband bakarameistara tekur einnig þátt í fimmta skipti og í bakaríum landsins má finna brjóstabollur en hluti af andvirði sölunnar rennur í styrktarsjóðinn. Göngurnar hefjast allar klukkan 11.00 og gengið verður í Reykjavík, Borgarnesi, Stykkishólmi, Patreksfirði, Ísafirði, Hvammstanga, Siglufirði, Akureyri, Vopnafirði, Egilsstöðum, Neskaupstað, Fáskrúðsfirði, Höfn, Vestmannaeyjum og Selfossi.

Nánari upplýsingar um hvern stað er hægt að nálgast á vefsíðu félagsins, gongumsaman.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×