Erlent

Fjórir menn dæmdir til dauða fyrir morð á þrettán ára dreng

Bjarki Ármannsson skrifar
Mikill fjöldi kom saman fyrir framan dómshúsið í Sylhet í dag.
Mikill fjöldi kom saman fyrir framan dómshúsið í Sylhet í dag. Vísir/AP
Fjórir karlmenn í Bangladess hafa verið dæmdir til dauða fyrir hrottalegt morð á þrettán ára dreng fyrr á árinu. Morðið hafði vakið mikinn óhug í landinu en mennirnir börðu drenginn til dauða og tóku það upp á myndband.

Drengurinn hét Samiul Alam Rajon og vann við að selja grænmeti með fjölskyldu sinni. Krufning leiddi í ljós að höfuðmeiðsli drógu hann til dauða en rúmlega sextíu sár fundust á líkama hans.

Myndbandið af atvikinu rataði víða á netinu en þar sjást árásarmennirnir hlæja og hæðast að Rajon á meðan þeir binda hann við staur og berja hann með stöng. Drenginn saka þeir um að hafa reynt að stela reiðhjólavagni.

Grunaðir þjófar verða oft fyrir árásum í Bangladess en þessi tiltekna árás vakti svo mikinn óhug meðal innfæddra að lögregla skipaði sérstakt teymi til þess að rannsaka hana. Þúsundir manna tóku þátt í göngum þar sem réttlætis var krafist fyrir dauða Rajons.

Einn þeirra fjögurra sem hlutu dóm er enn eftirlýstur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×