Erlent

Rúss­neska réttrúnaðar­kirkjan ætlar að bjóða upp á réttrúnaðarin­ter­net

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rússneska réttrúnaðarkirkjan ætlar að bjóða upp á þráðlaust internet í kringum kirkjur sínar.
Rússneska réttrúnaðarkirkjan ætlar að bjóða upp á þráðlaust internet í kringum kirkjur sínar. Visir/Getty
Rússneska réttrúnaðarkirkjan hefur í bígerð að bjóða upp á svokallað þráðlaust réttrúnaðarinternet í grennd við kirkjur og almenningssvæði í Moskvu.

Presturinn Roman Bogdasarov, yfirmaður kirkjutengsla hjá Rússnesku réttrúnaðarkirkjunni segir að internetið bjóði á margar hættur fyrir notendur þess, það sé fullt af áróðri fyrir aðrar kirkjudeildir og ISIS auk þess sem þar megi finna klámfengið efni og brenglaðar útgáfur af sögulegum atburðum.

Því ætlar rússneska réttrúnaðarkirkjan að bregðast við með því að bjóða upp á aðgengi að internetinu. Leiðtogar kirkjunnar ætla sér þó að stýra því hvaða efni verði hægt að nálgast.

„Við ætlum ekki að takmarka aðgang að vefsíðum, eingöngu að eyða öllu því sem er vont,“ sagði Bogdasarov en þeir sem tengjast hinu þráðlausa neti munu t.d. ekki geta nálgast neitt efni sem tengist samkynhneigð.

Bogdasarov sagði þó að þetta réttrúnaðarinternetið muni ekki eingöngu bjóða upp á vefsíður tengdar kirkjunni heldur einnig vinsælt efni á borð við kvikmyndir svo lengi sem þær byggi á gömlum og traustum gildum.

Kirkjan hyggst setja upp netið í samvinnu við borgaryfirvöld í Moskvu og hafa þau tekið vel í bón kirkjunnar. Stefnt er að því að netið verði sett upp við kirkjur, torg og listasöfn og verður aðgangur að því frír og opinn öllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×