Erlent

Týndur gítar Johns Lennon sleginn á 300 milljónir

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/getty
Kassagítar sem var í eigu Bítilsins Johns Lennon var sleginn á uppboði í Kaliforníu í Bandaríkjunum í dag á 2,4 milljónir Bandaríkjadala, eða tæplega 315 milljónir íslenskra króna.  Það er næst hæsta verð sem fengist hefur fyrir gítar á uppboði.

Gítarinn notaði Lennon á árunum 1962-1963, eða allt þar til honum var stolið í desember 1963. Um hálfri öld síðar kom í ljós maður að nafni John McCaw hafði keypt gítarinn, þó án þeirrar vitneskju að gítarnum hefði verið stolið – né að hljóðfærið hefði verið í eigu Bítilsins. Gítarinn fékk hann á 275 dollara, eða rúmar 36 þúsund krónur.

Um er að ræða gítar af gerðinni Gibson J-160E, en einungis er vitað til þess að tveir slíkir gítarar hafi verið fluttir til Bretlands frá Bandaríkjunum árið 1962. Hinn gítarinn fékk Bítillinn George Harrison. Þeir hljóðrituðu meðal annars lögin P.S. I Love You og Love Me Do með umræddum hljóðfærum.

Samkvæmt heimsmetabók Guinness hefur einungis einn gítar selst á hærra verði, en það var Fender Stratocaster sem seldist á 2,7 milljónir árið 2005 í Katar. Hann hafði verið áritaður af Keith Richards, Eric Clapton og Paul McCartney.

Nýr eigandi Gibson-gítarsins sögufræga hefur óskað eftir nafnleynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×