Lífið

Hér spreðuðu þorpsbúar þollurum

Guðrún Ansnes skrifar
Starfsfólk kortagerðarinnar stóð vaktina og seldi sína fínu afurð fyrir örfáa þollara.
Starfsfólk kortagerðarinnar stóð vaktina og seldi sína fínu afurð fyrir örfáa þollara.
„Þetta var alveg magnað. Börn sem eru hlédræg og til baka allajafna, skráðu sig í það sem þau langaði og blómstruðu í kjölfarið,“ segir Anna Margrét Smáradóttir, þorpsstjóri í Grunnskóla Þorlákshafnar, sem fagnaði uppskeruhátíð í gær.

Um var að ræða lokahnykk verkefnis sem staðið hefur vikulangt, sett hefur verið upp heilt þorp þar sem nemendur sinna skyldum þorpsbúanna.

„Nemendur velja sér vinnustað og mæta svo til vinnu. Til að mynda var í boði að vinna í bakaríinu, á kaffihúsi, við kortagerð, á nytjamarkaði og í leikhúsi svo eitthvað sé nefnt. Þau fengu svo borgað í gjaldmiðlinum, þollara.“

nóg í boði Meistarar í grímugerð létu til sín taka meðal þorpsbúa. fréttablaðið
Nemendur gátu sagt upp eða verið reknir, líkt og á venjulegum vinnumarkaði. Þá þurfti bara að snúa sér til atvinnumálastofnunar,“ útskýrir Anna Margrét. 

Uppskeruhátíðin markaði einnig útborgunardag og versluðu nemendur hverjir við aðra fyrir kaupið.

„Þarna læra þau að velja og hafna, hvað hlutir kosta og að þau þurfi að spá í svona hluti,“ segir Anna Margrét. 

Foreldrum var svo boðið á uppskeruhátíðina og gátu þeir keypt þollara og verslað líka. „Allt sem safnast inn fer svo í sjóð sem nýttur er í næsta þorp.“

Var þetta í annað skiptið sem blásið er til þorpsstemningar í Grunnskóla Þorlákshafnar og nýtur verkefnið gríðarlegra vinsælda meðal nemenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×