Erlent

Stal 50 kílómetra löngum vegakafla

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikil spilling þykir loða við vegagerð í Rússlandi.
Mikil spilling þykir loða við vegagerð í Rússlandi. Vísir/AFP
Háttsettur embættismaður innan fangelsiskerfisins í Rússlandi hefur verið handtekinn. Alexander Protopopov er sakaður um að hafa stolið 50 kílómetra löngum kafla af vegi sem þarfnaðist lagfærina. Framkvæmdin fór fram á um eins árs tímabili. Um er að ræða steyptan veg sem gerður var úr um sjö þúsund steypustykkjum.

Protopopv er sagður hafa séð um það verk að taka veginn í sundur. Hann sá hins vegar sjálfur um að selja kafla úr veginum áfram til einkafyrirtækis. Það fyrirtæki seldi svo stykkin áfram fyrir hagnað. Tjón ríkisins er talið vera rúmar sex milljónir rúbla eða um tíu milljónir króna.

Hann á yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi, verði hann fundinn sekur.

Samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar er iðnaðurinn tengdur vegagerð í Rússlandi mjög spilltur og kostnaður við vegagerð mun hærri en í öðrum löndum. Aðrir embættismenn eru sagðir hafa tekið þátt í þessu frumlega ráni og segja saksóknarar að einn þeirra hafi verið handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×