Erlent

Baráttukona fangelsuð í Sádi-Arabíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Badawi hlaut alþjóðleg hugrekkisverðlaun kvenna árið 2012 sem voru veitt af Hillary Clinton og Michelle Obama.
Badawi hlaut alþjóðleg hugrekkisverðlaun kvenna árið 2012 sem voru veitt af Hillary Clinton og Michelle Obama. Vísir/AFP
Ein af fremstu kvennréttindabaráttukonum Sádi-Arabíu hefur verið handtekin. Hún situr nú í sama fangelsi og bróðir hennar sem er bloggari. Samar Badawi er sökuð um að nota Twitter reikning fyrrverandi eiginmanns síns Waledd Abulkhair, mannréttindalögmanns, sem einnig er í fangelsi.

Badawi hlaut alþjóðleg hugrekkisverðlaun kvenna árið 2012 sem voru veitt af Hillary Clinton og Michelle Obama. Bróðir hennar Raif Badawa var dæmdur í tíu ára fangelsi og til þess að þola þúsund svipuhögg fyrir móðgandi bloggfærslur gagnvart trúnni.

Samkvæmt Independent var það eiginkona Raif sem sagði frá því að Samar hefði verið handtekin og að hún væri nú í sama fangelsi og bróðir hennar, en tveggja ára dóttir hennar er með henni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Samar kemst í kast við lögin í Sádi-Arabíu en árið 2010 var hún dæmd í sjö mánaða fangelsi fyrir að óhlýðnast föður sínum. Hann hafði misnotað hana frá 14 ára aldri. Þá meinaði innanríkisráðuneyti landsins að ferðast úr landi í desember 2014, þegar hún var á leið á mannréttindaráðstefnu í Brussel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×