Erlent

Fundu sex manns á lífi í húsarústum í Manta í Ekvador

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björgunarmenn leita að fólki í húsarústum í Manta.
Björgunarmenn leita að fólki í húsarústum í Manta. vísir/epa
Sex manns var í dag bjargað lifandi úr húsarústum í borginni Manta í Ekvador, þremur dögum eftir að öflugur jarðskjálfti reið yfir norðvesturströnd landsins. Einn af þeim sem var bjargað sagði björgunarmönnum að fjórir til viðbótar væru fastir í rústunum.

Skjálftinn, sem var af stærðinni, 7,8 átti upptök sín nálægt bænum Pedernales í Manabí-héraði en bærinn jafnaðist nánast við jörðu í skjálftanum. 413 manns hafa nú fundist látnir og eftir því sem tíminn líður minnka líkurnar á að finna fólk á lífi.

Jafnan er talið að þegar 72 klukkutímar eru liðnir frá skjálfta þá séu afar litlar líkur á að finna einhverja á lífi, en á miðnætti í kvöld að íslenskum tíma verða þrír sólarhringar liðnir frá skjálftanum í Ekvador. Ennþá er 231 saknað og þá slösuðust 2658 manns en þetta eru mestu náttúruhamfarir í landinu í meira en 40 ár.

„Það er fólk fast í rústunum og af lyktinni að dæma er augljóst að það er látið,“ sagði Marco Borja, herforingi í ekvadoríska hernum, í samtali við Reuters en hann var þá staddur í strandbænum Canoa, skammt frá Manta.

Bærinn varð mjög illa úti í skjálftanum og lýsti Rafael Correa, forseti Ekvador, Canoa sem draugabæ í samtali við fjölmiðla fyrr í dag. Sagði hann að 80 prósent af bænum hefði verið jafnaður við jörðu.

Þá er jafnframt ljóst að eignatjón í landinu er gríðarlegt og uppbyggingin mun taka mörg ár.

„Tjónið nemur þúsundum milljóna. Mér reiknast til að þetta séu um 3 milljarðar dala sem er 3 prósent af vergri landsframleiðslu okkar. Uppbyggingin mun því taka mörg ár og þetta verður löng og ströng barátta. Við megum hins vegar ekki gefast upp,“ sagði Correa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×