Erlent

Dæmdir fyrir taka lán í nafni íslenskra landsliðsmanna

Atli Ísleifsson skrifar
Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Helgi Valur Daníelsson.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Helgi Valur Daníelsson. Vísir/Getty
Dómstóll í Svíþjóð hefur dæmt átta meðlimi glæpahrings í Svíþjóð fyrir að hafa stolið auðkennum sautján íþróttamanna og þannig komist yfir milljónir króna.

Knattspyrnumennirnir Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Helgi Valur Daníelsson, sem báðir eru reynslumiklir landsliðsmenn, voru í hópi íþróttamannanna, en glæpamennirnir beindu sjónum sínum að ungum íshokkí- og fótboltamönnum sem höfðu skrifað undir arðsama samninga við erlend félög og flutt til útlanda.

Aftonbladet greinir frá því að höfuðpaur glæpahringsins, 39 ára maður frá Stokkhólmi, hafi verið dæmdur í fimm ára fangelsi.

Gunnar Heiðar segir í samtali við fótbolti.net að glæpamennirnir hafi náð um milljón íslenskra króna á sitt nafn.

Sóttu um lán í nafni íþróttamannanna

Að minnsta kosti sautján þekktir íþróttamenn urðu fyrir barðinu á glæpahringnum, en auk Helga Vals og Gunnars Heiðars má nefna fótboltamanninn Joseph Baffo og íshokkíspilarana Stefan Lassen, Martin Sevc, Esa Pirnes og Daniel Bellissimo. Alls hafi glæpamennirnir komist yfir um ellefu milljónir sænskra króna, um 166 milljónir íslenskra króna, með því að sækja um lán í nafni íþróttamannanna.

Lögregla í Svíþjóð lagði hald á rúmlega fjögur hundruð greiðslukort, tíu farsíma, 27 fölsuð vegabréf og mikinn fjölda falsaðra skjala.

Helgi Valur spilaði með liðinu AIK frá Stokkhólmi á árunum 2010 til 2013 en flutti sig þá um set til portúgalska félagsins Belenenses. Gunnar Heiðar lék með Norrköping á árunum 2011 til 2013 þegar hann gekk til liðs við tyrkneska liðið Konyaspor. Árin 2014 til 2015 spilaði hann svo með Häcken frá Gautaborg. Hann er í dag leikmaður ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×