Erlent

Átökin hafa kostað nítján þúsund lífið

guðsteinn bjarnason skrifar
Maður situr á hækjum sér á vettvangi sprengjuárásar í Bagdad.
Maður situr á hækjum sér á vettvangi sprengjuárásar í Bagdad. Fréttablaðið/EPA
Átökin og ofbeldið í Írak hafa kostað að minnsta kosti 18.802 almenna borgara lífið á tímabilinu frá ársbyrjun 2014 þangað til í lok október árið 2015.

Á þessu sama tímabili hafa að minnsta kosti 3,2 milljónir manna hrakist að heiman, þar af meira en milljón barna á skólaaldri.

Þetta kemur fram í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum, sem byggð er á vitnisburði frá fólki sem hefur upplifað atburðina sjálft.

Í skýrslunni eru DAISH-samtökin, Íslamska ríkið svonefnda, sökuð um kerfisbundið ofbeldi og víðtæk brot á alþjóðalögum. Þar á meðal er fullyrt að samtökin haldi 3.500 manns í þrældómi, en flest er það konur og börn.

„Íslamska ríkið hélt áfram að beita konur og börn kynferðisofbeldi,“ segir í skýrslunni, en þar er einnig greint frá fjölmörgum dæmum um manndráp Íslamska ríkisins. Oft eru þessi grimmdarverk framin opinberlega með því meðal annars að skjóta, hálshöggva, misþyrma fólki, kveikja í því lifandi eða henda því ofan af húsum.

Íslamska ríkið ber þó ekki ábyrgðina á öllum manndrápum og öðrum glæpum gegn almennum borgurum í Írak þetta tímabil, sem fjallað er um í skýrslunni. Sérstakur kafli fjallar um grimmdarverk stjórnarhersins og annar kafli um aðra gerendur, sem ekki hefur verið hægt að skera úr um hverjir séu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×