Skoðun

Hringavitleysa

Skafti Þ. Halldórsson skrifar
Hvílík blessun er það að vera grunnskólakennari nú um stundir. Ánægjan við að innleiða nýja aðalnámskrá er ómæld enda miklar sviptingar og breytingar á allri nálgun náms og kennslu. Margt í þeirri námskrá er svo skemmtilega loðið og flókið að umræður um það allt saman veita daglega ánægju, spjallið endalaust og líf kennara líkist orðið lífi hetjanna í Survivor. Hver kemst af? Hver botnar nokkuð í þessu? Kennarar hafa nóg að gera.

Ekki eru þeir leiðinlegri skemmtikraftarnir í nýmyndaðri Menntamálastofnun og raunar nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins sem hafa komið fram með lausnir á námsmati grunnskólans. Nú fáum við kennarar tækifæri til að umreikna okkar gömlu einkunnaskala eða stig, hvort sem þeir voru áður 1 til 10 eða 1 til 4 í bókstafina A, B, C sem er vitaskuld mikil framför og þar að auki B plús og C plús í 10. bekk. Talnagildin gömlu, sem byggðu sums staðar eingöngu á þekkingu nemenda á námsgreinum, víkja. Á bak við hinn nýja kvarða hefur hver skóli fyrir sig komið upp ítarlegum hæfniviðmiðum, byggðum á skóla- og aðalnámskrám svo að halda skyldi að allt væri nú á hreinu varðandi námsmat skólanna. Upplýsingarnar ítarlegri og meiri. Tekið er skýrt fram í nýlegri glærusýningu á heimasíðu Menntamálastofnunar að ekki skuli reiknað meðaltal einkunna enda erfitt að sjá hvernig meðaltal A, A, B, B, B plús og C ætti að vera.

Hvers konar hringavitleysa er þetta?

En gamanmálunum lýkur ekki með þessu. Nú liggja fyrir tillögur um námsaðstoð við forystumenn framhaldsskólanna. Ef marka má fréttir dagblaða geta sumir skólameistarar þeirra skóla ómögulega skilið þessi námsviðmið þegar þeir þurfa nú að taka á móti nýjum nemendum sem eru með nýstárlegar einkunnir og þurfa því hjálp til að túlka A, B og C að ég tali nú ekki um B plús og C plús. Og til hvaða ráðs grípur Menntamálastofnun til að aðstoða blessaða skólameistarana?

Nú skal umreikna ABC og plúsana tvo yfir í tölur á nýjan leik 1 til 4. Þannig gildir A nú sem 4, B plús sem 3,75, B sem 3, C plús 2,75 og C sem 2. Og á glærusýningunni góðu er svo sýnt hvernig megi reikna heildarsummu þessara talnagilda sem auðveldar skólameisturunum að reikna meðaltal og verður að segja að það sé í býsna mikilli mótsögn við þau fyrirmæli til grunnskólanna að alls ekki eigi að reikna út meðaltöl.

Nú er mér sem fákænum deildarstjóra í grunnskóla spurn: Hvers konar hringavitleysa er þetta eiginlega? Hefur Ragnar Reykás verið ráðinn í störf við Menntamálastofnun? Hvaða vit er í því að reikna niðurstöður mats úr tölum yfir í ABC og plús en reikna það síðan allt saman yfir í tölur aftur? Og hvers konar vanmat er þetta eiginlega á andlegu atgervi skólameistara framhaldsskólanna?




Skoðun

Sjá meira


×