Innlent

Breskir dýraverndunarsinnar æfir vegna drápa á greifingjum

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Greifingjar eru taldir smitberar berkla sem herjað hafa á nautgripi í Bretlandi.
Greifingjar eru taldir smitberar berkla sem herjað hafa á nautgripi í Bretlandi. visir/getty
Dýraverndunarsinnar í Bretlandi hafa fordæmt linnaus dráp á greifingjum þar í landi. Þetta kemur fram í grein The Huffington Post. Rúmlega 10.000 dýr voru drepin í haust en yfirvöld réðu meindýraeyði til þess að fækka dýrunum.

Drápin áttu að sporna gegn berklum í nautgripum en greifingjar geta verið smitberar sjúkdómsins.

Dýraverndunarsinnarnir telja að ekki sé fótur fyrir þessum drápum og að skortur sé á vísindalegum rannsóknum sem sýna fram á að aðgerðir af þessu tagi beri árangur.

Þeir gagnrýna jafnframt að heilbrigðum greifingjunum hafi verið útrýmt í svo stórum stíl en dýrin voru drepin án tillits til þess hvort þau væru sýkt eða ekki. 

Dýrafræðingurinn Rosle Woodroffe, sem hefur sérhæft sig í greifingjum, lýsti því meðal annars yfir að yfirvöld styddust við óvísindalegar aðferðir sem gerðu það jafnframt að verkum að erfitt yrði að meta árangur drápanna.

Yfirvöld í Bretlandi hafa þó fullyrt að greifingjadrápin hafi borið árangur og að þau muni hiklaust koma í veg fyrir frekari berklasmit nautgripa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×